Körfubolti

Heat jafnar einvígið gegn Spurs

Stefán Árni Pálsson skrifar
James setur hér boltann í körfuna í nótt.
James setur hér boltann í körfuna í nótt. Mynd / Getty Images
Einvígið um NBA-meistaratitilinn heldur áfram að vera gríðarlega spennandi en Miami Heat náði að jafna einvígið, 2-2, gegn San Antonio Spurs með frábærum sigri 109-93 í nótt.

Það var greinilegt frá fyrstu mínútu að gestirnir frá Miami ætluðu sér að jafna einvígið. Liðið byrjaði betur í leiknum og setti strax tóninn en liðið leiddi samt sem áður leikinn aðeins með þremur stigum eftir fyrsta fjórðung, 29-26.

Spurs gáfu ekkert færi á sér í öðrum leikhluta og börðust eins og ljón. Með Tony Parker, leikstjórnanda San Antonio Spurs, á annarri löppinni náði liðið að fara inn í hálfleikinn í stöðunni 49-49.

Í þriðja leikhlutanum voru liðin en jöfn en Miami Heat ávallt einu skrefi á undan. Gestirnir í Miami Heat tóku völdin í loka fjórðungnum og byrjuðu að auka við forskot sitt í leiknum.

Heimamenn misstu boltann sjö sinnum beint í hendurnar á leikmönnum Miami Heat í fjórða leikhlutanum sem gerði það ómögulegt fyrir liðið að koma sér inn í leikinn. Heat vann að lokum flottan sigur, 109-93, og jafnaði liðið metin í einvíginu 2-2.

Lebron James var með 33 stig fyrir Miami Heat í leiknum, Dwyane Wade skoraði 32 stig og Chris Bosh var með 20 stig. Þessir þrír leikmenn skoruðu því 85 stig af þeim 109 sem Miami Heat gerði í leiknum.

Tim Duncan var atkvæðamestur í liði San Antonio Spurs með 20 stig.

Fimmti leikur liðanna fer fram á sunnudagskvöld en liðið sem vinnur þann leik tekur bílstjórasætið í einvíginu um NBA-meistaratitilinn.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×