Handbolti

Haukar mæta hollensku liði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Haukar frá Hafnarfirði munu mæta hollenska liðinu OCI Lions í fyrstu umferð EHF-bikarkeppninnar í handbolta en dregið var í höfuðstöðvum Handknattleikssambands Evrópu í morgun.

OCI Lions varð í öðru sæti í hollensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en liðið keppti í Áskorendamóti Evrópu í fyrra. Árið þar áður komst liðið í þriðju umferð EHF-bikarsins þar sem liðið féll svo úr leik fyrir Rhein-Neckar Löwen frá Þýskalandi.

Haukar urðu deildarmeistarar í N1-deild karla í fyrra en töpuðu fyrir Fram í lokaúrslitum úrslitakeppninnar. Liðið keppti í EHF-bikarnum en féll úr leik fyrir úkraínska liðinu Motor Zaporozhye í annarri umferð.

Sigurvegararnir í rimmu Hauka og OCI Lions mæta Benfica frá Portúgal í annarri umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×