Körfubolti

Rose snéri aftur á völlinn eftir 17 mánaða fjarveru

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rose leit vel út á vellinum í nótt
Rose leit vel út á vellinum í nótt MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Derrick Rose leikstjórnandi Chicago Bulls í NBA körfuboltanum lék sinn fyrsta leik í 17 mánuði í nótt þegar hann snéri aftur á völlinn í fyrsta æfingaleik Bulls fyrir komandi tímabil.

Rose lék í 20 mínútur fyrir Bulls sem sigraði Indiana Pacers 82-76. Rose skoraði 13 stig og gaf 3 stoðsendingar en Taj Gibson var stigahæstur hjá Bulls með 18 stig á 31 mínútu.

Fyrstu æfingaleikirnir fyrir NBA tímabilið voru leiknir í gær og nótt. Oklohoma City Thunder reið á vaðið í Tyrklandi þar sem liðið vann Fenerbahce Ulker 95-82 þar sem Kevin Durant skoraði 24 stig.

Dwight Howard lék sinn fyrsta leik með Houston Rockets sem tapaði 116-115 fyrir New Orleans Pelicans. Howard skoraði 19 stig og tók 9 fráköst á 27 mínútum. James Harden skoraði 21 stig og Omri Casspi 20.

Anthony Morrow skoraði 26 stig fyrir Pelicans og Anthony Davis og Austin Rivers 21 stig hvor.

Að lokum vann Los Angeles Lakers níu stiga sigur á Golden State Warriors 104-95. Lakers lék án Kobe Bryant, Steve Nash og Pau Gasol en Xavier Henry stal senunni með 29 stigum af bekknum. Nick Young skoraði 17.

Klay Thompson lék 38 mínútur fyrir Warriors og skoraði 26 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×