Handbolti

Wilbek kemur Guðmundi til varnar

Guðmundur og Wilbek á blaðamannafundinum í gær.
Guðmundur og Wilbek á blaðamannafundinum í gær.
Það eru ekki allir Danir ánægðir með það að Íslendingur hafi verið ráðinn þjálfari danska landsliðsins í handbolta. Ljóst er að Guðmundur mun ekki fá neinn afslátt hjá einhverjum fjölmiðlamönnum sem eflaust verða fljótir á bakið á honum ef illa árar.

Danskir fjölmiðlar hafa meðal annars lýst Guðmundi sem handboltanörd sem geri ekkert annað en að horfa á myndbönd af handboltaleikjum.

Ulrik Wilbek, núverandi landsliðsþjálfari, er ekki ánægður með þá mynd sem fjölmiðlar hafa dregið upp af Guðmundi.

"Mér finnst hún hafa verið mjög yfirborðsleg og ekki gefa rétta mynd af honum. Sú mynd sem hefur verið dregin upp af honum er ekki sanngjörn. Ég veit að leikmenn Rhein-Neckar Löwen eru mjög ánægðir með hann sem þjálfara og manneskju," sagði Wilbek.

Guðmundur mun hafa úr stærri hópi að velja hjá Dönum en hann er líklega vanur.

"Það er ein af áskorununum fyrir hann. Það er krefjandi að hafa allt í einu 25 leikmenn að velja úr. Við erum sannfærðir um að Guðmundur geti leyst þetta vandamál. Hann hefur alls staðar náð árangri og hann er góður í því að ná því mesta úr sínum leikmönnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×