Körfubolti

NBA í nótt: Tvö töp í röð hjá Miami Heat

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James í nótt.
LeBron James í nótt. Mynd/AP
Miami Heat tapaði sínum öðrum leik í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar liðið lá á móti Brooklyn Nets en þetta var í fyrsta sinn í tíu mánuði sem NBA-meistararnir tapa tveimur leikjum í röð.

Paul Pierce og Joe Johnson skoruðu báðir 19 stig í 101-100 sigri Brooklyn Nets á Miami Heat en þeir settu báðir niður vítin sín á síðustu andatökum leiksins. LeBron James skoraði 26 stig fyrir Miami og Dwyane Wade var með 21 stig. Nets-liðið var fyrir leikinn búið að tapa 13 leikjum í röð á móti Miami.

Tony Parker skoraði 24 stig og Kawhi Leonard var með 15 stig og 11 fráköst þegar San Antonio Spurs vann 91-85 sigur á Los Angeles Lakers og það án Tim Duncan. Pau Gasol var með 20 stig og 11 fráköst fyrir Lakers-liðið sem var að spila sinn þriðja leik á fjórum dögum. San Antonio er búið að vinna tvo fyrstu leiki sína.

Chris Paul var með tvennu þriðja leikinn í röð (26 stig og 10 stoðsendingar) þegar Los Angeles Clippers vann Sacramento Kings 110-101 en Blake Griffin var með 20 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar í öðrum sigri Clippers í röð.

Minnesota Timberwolves er búið að vinna tvo fyrstu leiki sína eftir sannfærandi 100-81 heimasigur á Oklahoma City Thunder í nótt.  Kevin Love var með 24 stig og 12 fráköst en Kevin Durant skoraðim "bara" 13 stig fyrir Thunder-liðið.

James Harden var með 34 stig og Dwight Howard bætti við 13 stigum og 16 fráköstum þegar Houston Rockets vann Dallas Mavericks 113-105. Houston hefur unnið tvo fyrstu leiki sína.

Philadelphia 76ers var spáð slæmu gengi en er búið að vinna tvo fyrstu leiki sína. Thaddeus Young skoraði 29 stig í 109-102 sigri á Washington Wizards en John Wall var með 26 stig fyrir Galdramennina.

Zaza Pachulia skoraði 20 stig þegar Milwaukee Bucks vann 105-98 sigur á Boston Celtics í fyrsta heimaleik Boston-liðsins undir stjórn Brad Stevens. Boston komst mest 22 stigum yfir í þriðja leikhlutanum en tapaði samt og er án sigurs í fyrstu tveimur leikjunum.

Öll úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Charlotte Bobcats -Cleveland Cavaliers 90-84

Orlando Magic -New Orleans Pelicans 110-90

Washington Wizards -Philadelphia 76Ers 102-109

Atlanta Hawks -Toronto Raptors 102-95

Boston Celtics -Milwaukee Bucks 98-105

Houston Rockets -Dallas Mavericks 113-105

Memphis Grizzlies -Detroit Pistons 111-108 (framlengt)

Minnesota Timberwolves -Oklahoma City Thunder 100-81

Brooklyn Nets -Miami Heat 101-100

Denver Nuggets -Portland Trail Blazers 98-113

Phoenix Suns -Utah Jazz 87-84

Sacramento Kings -Los Angeles Clippers 101-110

Los Angeles Lakers - San Antonio Spurs 85-91

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×