Fótbolti

Lars Lagerbäck: Algjör þögn í búningsklefanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Benediktsson ræddi við Lars Lagerbäck, þjálfara íslenska karlalandsliðsins, í rigningunni fyrir utan Maksimir-leikvanginn í kvöld en íslenska landsliðið er úr leik á HM eftir 2-0 tap á móti Króatíu.

„Ég er mjög vonsvikinn eins og allir leikmennirnir í liðinu. Það var algjör þögn í búningsklefanum eftir leikinn. Það er svekkjandi að geta ekki gert betur þegar við vorum svona nálægt því að komast á HM," sagði Lars Lagerbäck.

„Það var tvennt sem réð úrslitum í þessum leik. Við lékum ekki eins vel og við getum best en á sama tíma spilaði króatíska liðið mjög vel. Þeir létu okkur líta illa út,"  sagði Lars.

„Það er samt erfitt að útskýra það af hverju við spiluðum ekki betur. Kannski var þreyta í mannskapnum og kannski var stressið að trufla menn. Við náðum ekki að spila eins vel og við getum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik," sagði Lars.

Hvað með framhaldið, mun Lars Lagerbäck setjast niður með stjórn KSÍ á næstu dögum? „Ég veit ekki hvort það verður á næstu dögum því ég ætla að fara heim í frí. Við munum ræða framtíðina samt fljótlega," sagði Lagerbäck.

Það er hægt að sjá allt viðtal Gumma Ben við Lagerbäck með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan. Hann endar viðtalið á því að pressa á Svíann að gefa upp tímaramma á hvenær gengið verður frá framtíð hans með liðið og Lagerbäck býst við því að það gæti gerst á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×