Handbolti

Var dómurunum mútað? | Myndband

Forráðamenn danska liðsins Århus eru æfir af reiði eftir að liðið féll úr leik í EHF-bikarnum á afar vafasaman hátt.

Århus var að spila við makedónska liðið HC Zomimak í þriðju umferð keppninnar. Århus fór með þriggja marka forskot í seinni leikinn en þar sá liðið aldrei til sólar. Að stórum hluta er það dómurunum að þakka að makedónska liðið fór áfram.

Þeir Vagif Aliyev og Alekper Aghakishiyev frá Aserbaijan tóku algjörlega yfir leikinn. Leikmenn Århus voru hreinlega lamdir í harðfisk án þess að dómaraparið flautaði.

HC Zomimak vann að lokum níu marka sigur, 33-24, og komst áfram í keppninni. Er þegar byrjað að tala um að dómurunum hafi verið mútað.

"Það er ekki hægt að lýsa því sem þarna gekk á öðruvísi en með því að segja að þetta hafi verið svindl. Það var sorglegt að horfa upp á þetta," sagði Erik Veje Rasmussen, þjálfari Århus.

"Við vorum fíflin í leikhúsi fáranleikans og við höfðum ekkert að segja um framgang mála. Það hefði mátt gefa að minnsta kosti tíu rauð spjöld í þessum leik."

Búið er að taka saman nokkur atvik þar sem leikmenn Århus eru lamdir án þess að dómararnir aðhafist nokkuð. Það verður svo hver að dæma fyrir sig hvort þetta sé eðlilegt eða hvort dómurunum hafi hreinlega verið mútað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×