Handbolti

Aðgerð Hannesar Jóns gekk vel | Mynd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Hannes Jón Jónsson fór í gær í sína aðra aðgerð á nokkrum dögum vegna sýkingar í öxl. Aðgerðin gekk vel. Hann var lagður inn á sjúkrahús á mánudag vegna mikilla verkja í öxlinni og var fullyrt að ferill hans gæti verið í hættu vegna þessa.

„Líðanin er nokkuð góð en þeir voru í raun að gera það sama og á miðvikudaginn,“ sagði Hannes Jón sem mun dvelja áfram á sjúkrahúsinu næstu dagana.

„Ég er fyrst og fremst í sýklalyfjameðferð og ligg því hér inni með lyfjagjöf í æð. Svo er bara stríð inni í mér - sýklalyfin gegn sýkingunni.“

Hann segist vongóður um að allt fari á besta veg enda ekki ástæða til að telja annað. „Tíminn verður bara að leiða það í ljós en læknarnir gátu ekki annað séð í aðgerðinni en að sýkingin sé í rénum - bæði í liðnum og í blóðinu.“

Óvíst er hvenær Hannes Jón geti stigið á völlinn á ný en hann leikur með Eisenach í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Aðeins er rúmt ár síðan hann greindist með krabbamein en Hannes Jón sneri aftur til keppni nokkrum mánuðum síðar og stefnir á að gera slíkt hið sama nú.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af öxl Hannesar Jóns eftir aðgerðina sem hann birti á Instagram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×