Handbolti

Dönsku stelpurnar áttu ekki möguleika í þær brasilísku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Brasilía mætir Serbíu í úrslitaleiknum á HM kvenna í handbolta í Serbíu en Brasilía tryggði sér sæti í úrslitaleiknum eftir sannfærandi sex marka sigur á Dönum í kvöld, 27-21.

Brasilía og Serbía eru bæði að spila sinn fyrsta úrslitaleik á HM kvenna á sunnudaginn en Danir mæta Pólverjum í leiknum um þriðja sætið.

Brasilíska liðið tók frumkvæðið í upphafi leiks en liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14-10. Brasilísku stelpurnar skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og fóru langt með að ganga frá leiknum. Dönsku stelpurnar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í þrjú mörk en nær komust þær ekki.

Danir eiga reyndar fulltrúa í úrslitaleiknum því þjálfari brasilíska landsliðsins er Daninn Morten Soubak sem náði fimmta sætinu með brasilíska liðinu á heimavelli fyrir tveimur árum síðan.

Dönsku stelpurnar töpuðu því í undanúrslitum á öðru heimsmeistaramótinu í röð en þær áttu möguleika á að komast í úrslitaleikinn í fyrsta sinn síðan á HM 1997.

Brasilíska liðið hefur unnið alla átta leiki sína á HM í Serbíu en það reynir heldur betur á sigurgönguna á sunnudaginn þegar þær mæta heimastúlkum með troðfulla tuttugu þúsunda manna höll á bak við sig.

Mynd/AP
Mynd/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×