Handbolti

Við ætlum til Serbíu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir, Arna Sif Pálsdóttir og félagar í landsliðinu spila sannkallaðan stórleik á morgun.
Hrafnhildur Skúladóttir, Arna Sif Pálsdóttir og félagar í landsliðinu spila sannkallaðan stórleik á morgun. fréttablaðið/stefán

Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, segir landsliðið alltaf stefna á stórmót. Fram undan eru leikir um laust sæti á HM í Serbíu. Þjálfarinn kallar eftir stuðningi áhorfenda svo liðið nái sínu allra besta fram. 

Það er mikið undir hjá stelpunum okkar á morgun. Þá taka þær á móti Tékkum í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti á HM sem fram fer í Serbíu í desember. Leikurinn fer fram í Vodafone-höllinni og stelpurnar verða að ná hagstæðum úrslitum til þess að eygja von um að komast til Serbíu fyrir jól. Ísland spilaði tvo leiki við Tékka fyrir síðasta EM og vann Ísland annan þeirra leikja.

„Við eigum helmingslíkur á því að komast áfram. Leikir okkar gegn Tékkum hafa alltaf verið jafnir og þessi lið eru svipuð að getu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari.

Tékkar stóðu sig mjög vel á síðasta EM. Liðið komst upp úr riðlakeppninni. Í milliriðlinum tapaði liðið svo fyrir Dönum, Serbum og Norðmönnum. Allir leikirnir töpuðust með tveimur mörkum sem segir margt um styrkleika tékkneska liðsins.

Snýst um vörn og markvörslu
Guðný Jenný verður í aðalhlutverki í marki Íslands á morgun.Mynd/Stefán

„Við erum að fara að mæta hörkuliði. Við verðum að ná upp varnarleik og markvörslu. Það er sem fyrr lykillinn að þessu hjá okkur. Sóknarleikurinn lítur vel út og svo er Karen komin inn eftir meiðslin og það styrkir okkur mikið. Ef við náum upp vörn og markvörslu þá er ég vongóður.“

Íslenska liðið tók þátt í æfingamóti í Svíþjóð á dögunum þar sem allir leikir töpuðust og varnarleikurinn var æði misjafn. Ágúst vonast til þess að liðið hafi lært af þeim leikjum.

„Við þurfum jafnari varnarleik en í þessum leikjum. Við höfum verið að skerpa á varnarleiknum á síðustu æfingum. Við kunnum það vel og spilum venjulega góða vörn. Ég hef því ekki neinar stórkostlegar áhyggjur af varnarleiknum sem slíkum.“

Það er oft sagt að það sé verra að spila fyrri leikinn í svona umspili á heimavelli en Ágúst Þór reynir að líta á það jákvæðum augum.

„Það er erfitt að tala um hvað við þurfum að gera vel svo ég sé í rónni. Ég var ekki einu sinni rólegur þó svo að við hefðum unnið Úkraínu með átján mörkum á heimavelli. Við munum reyna að einbeita okkur að því að spila vel og halda leikskipulagi. Það er hættulegt að hugsa of mikið um mörk og annað. Ég horfi á þetta sem fjóra hálfleiki og við ætlum að koma vel út úr þeim,“ sagði Ágúst.

Væru það ekki mikil vonbrigði fyrir liðið að ná ekki að klára einvígið?

„Við erum í þessu til þess að komast á stórmótin og við stefnum á að komast í gegnum þetta. Auðvitað yrðu það því vonbrigði að komast ekki áfram. Skiptir engu hver mótherjinn er.“

Stelpurnar hafa verið vel hvattar áfram í síðustu leikjum í Vodafone-höllinni og Ágúst vonar að það verði ekki breyting þar á.

„Okkur hefur liðið vel þar og spilað vel. Það er klárt mál að við spilum á erfiðum útivelli í Tékklandi og við þurfum því að lágmarki 1.000 manns til þess að styðja okkur í þessum leik. Ég veit að stelpurnar eiga eftir að sýna góðan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×