Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Njarðvík 105-84 | Njarðvíkingar teknir í kennslustund

Árni Jóhannsson skrifar
Michael Craion, leikmaður Keflavíkur, var frábær í kvöld.
Michael Craion, leikmaður Keflavíkur, var frábær í kvöld. Vísir/Stefán
Keflvíkingar sýndu styrk sinn í kvöld þegar þeir unnu sannfærandi 21 stigs sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík, 105-84, í Reykjanesbæjarslagnum í TM-höllinni í Keflavík í kvöld.

Keflvíkingar tóku Njarðvíkinga hreinlega í kennslustund í þessum leik og sendu skýr skilboð til þeirra og annarra liða í úrvalsdeildinni.

Michael Craion átti stórleik og skoraði 31 stig, Darrel Keith Lewis var með 24 stig og Gunnar Ólafsson var með 20 stig. Logi Gunnarsson skoraði 25 stig og Elvar Már Friðriksson var með 21 stig.

Keflvíkingar gáfu tóninn strax í byrjun, unnu fyrsta leikhlutann 30-14, og litu ekki til baka eftir það. Keflavík var tíu stigum yfir í hálfleik, 48-38, og var aftur komið með 19 stiga forskot, 81-62, fyrir lokaleikhlutann.

Skiljanlega var mikil spenna fyrir leik Keflvíkinga og Njarðvíkinga í TM-höllinni í kvöld. Í fyrsta leikhluta náðu heimamenn að stjórna spennustiginu sínu betur og eftir jafnar upphafsmínútur náðu Keflvíkingar mest 17 stiga mun þegar rúmar sex mínútur voru liðnar af leiknum. Þeir voru bæði að ná boltanum af gestunum og áttu greiða leið í skot á körfu Njarðvíkinga. Njarðvíkingar virtust vera eitthvað vankaði en náðu að skora allavega tveggja stafa tölu í fyrsta leikhluta sem endaði 30-14 fyrir Keflavík.

Njarðvíkingar vildu náttúrulega ekki láta valta yfir sig í Sláturhúsinu í kvöld og mættu mikið einbeittari til leiks í öðrum fjórðung þar sem þeir skoruðu fyrstu fimm stigin og nú voru það heimamenn sem virtust vera eitthvað vankaðir en þeir skoruðu ekki utan af velli fyrr en tæpar fimm mínútur voru liðnar af fjórðungnum. Njarðvíkingar náðu að minnka muninn í sex stig en Keflvíkingar lokuðu hálfleiknum vel og með Michael Craion og Gunnar Ólafsson í fararbroddi voru með tíu stiga forystu í hálfleik, 48-38.

Craion hafði skorað 16 stig og Gunnar bætt við 11 fyrir heimamenn en hjá Njarðvík var Tracy Smith Jr. með 15 stig í hálfleik.

Seinni hálfleikur náði aldrei flugi að ráði en eftir að hafa verið tíu stigum yfir í hálfleik þá náðu Keflvíkingar hægt og bítandi að koma muninum í kringum 20 stig þegar þriðji leikhluti var hálfnaður og litu þeir aldrei til baka. Njarðvíkingar virkuðu andlausir og ekki tilbúnir í baráttuna sem einkennir nágrannaslagi og nýttu heimamenn sér það til fullnustu. Varnarleikur þeirr var þéttur og í sókn opnuðu þeir vörn þeirra grænklæddu án þess að hafa mikið fyrir að virtist. Þriðja leikhluta lauk með tölunum 81-62 fyrir heimamenn og virtist það bara vera formsatriði að klára leikinn.

Sú varð raunin. Njarðvíkingar náðu að klóra sig til baka í 11 stig en eftir það var aftur skellt í lás og heimamenn bættu í um miðbik lokafjórðungsins. Þegar um þrjár mínútur voru eftir var skipt inn á þeim mönnum sem ekki höfðu fengið neinar mínútur og kláruðu þeir leikinn sem endaði 105-84 fyrir Keflavík.

Keflvíkingar náðu þar með að jafna KR aftur á toppi deildarinnar og eru þeir með 26 stig. Þeir eru sex stigum á undan Grindavík og náðu að auka forskot sitt á Njarðvík í átta stig. Stigahæstur fyrir Keflavík var Michael Craion með 31 stig en Logi Gunnarsson fór fyrir sínum mönnum með 25 stig.

Magnús Þór Gunnarsson: Við spiluðum vel í 40 mínútur

Fyrirliði Keflavíkur undafarin ár, Magnús Þór Gunnarsson var að spila einungis sinn annan leik í Dominos-deildinni í ár og skilaði hann fínu dagsverki. Hann skoraði fjórar þriggja stiga körfur úr átta tilraunum og endaði leikinn með tólf stig. Hann var gífurlega ánægður í leikslok.

„Þetta er akkúrat eins og þetta á að vera. Æðislegt að koma til baka í svona leik og ég held að ég hafi hitt úr tveimur fyrstu skotunum, þannig að ég var alveg í standandi stuði ef ég á að segja alveg eins og er.“

Hann var spurður að því hvað Keflvíkingar hafi verið að gera rétt í kvöld, „Við spiluðum vel í 40 mínútur, við náðum 20 stiga forystu í hálfleik og við hættum ekkert þó að þeir hafi skorað tvær, þrjár körfur. Við héldum áfram og við spiluðum í 40 mínútur og það var málið."

„Við eigum montréttinn núna í Reykjanesbæ og er það hörkugott að vinna Njarðvík í báðum leikjunum, þeir eru með flott lið. Það er samt leikur á fimmtudaginn þannig að við þurfum að koma okkur niður á jörðina, taka æfingu á morgun og gíra okkur upp fyrir þann leik og restina af tímabilinu."

Logi Gunnarsson: Flatt og lélegt

Hann var súr í bragði, Logi Gunnarssson þegar blaðamaður náði á hann eftir leik. „Við mundum eftir síðasta leik í Njarðvík sem var hörkuleikur þar sem við vorum yfir bróðurpartinn úr leiknum. Í kvöld vorum við að elta allan leikinn, við vorum flatir og fengum til að mynda á okkur 30 stig eftir fyrsta leikhluta, það er ekki það sem við ætluðum að gera."

„Við vorum bara ekki nógu harðir af okkur, þeir voru miklu aggressívari en við ásamt því að við vorum staðir fyrir utan. Þegar boltinn fór inn í kom hann ekki aftur út og við spiluðum bara illa. Þá sérstaklega varnarlega."

Logi var spurður hvort Njarðvíkingar hefðu getað gert eitthvað betur í kvöld: „Við hefðum þurft að berja á þeim frá fyrstu mínútu og vera svolítið ákafir eins og þeir voru við okkur. Ég skil ekki afhverju við vorum það ekki, við vorum það í leiknum út í Njarðvík þar sem gekk miklu betur og við vorum í möguleika á að vinna leikinn. En í kvöld vorum við að elta allan tímann og vorum bara flatir. Sem er furðulegt þar sem það er fullt hús og maður er að spila fyrir okkar áhorfendur. Þetta var mjög lélegt.

Andy Johnston: Þetta er aldrei auðvelt

Þjálfari Keflvíkinga var spurður að því hvort leikurinn í kvöld hafi verið léttur en lokatölur gætu gefið það til kynna. „Þetta er aldrei auðvelt, ég elska hvernig fólk lítur á þetta sem eitthvað létt verk. Það sem mínir menn gerðu í kvöld er að þeir léku af hörku, þeir léku saman og gerðu það vel. Þegar við gerum það, þá erum við nokkuð góðir. Njarðvík er líka með gott lið en áttu ekki sinn besta leik í kvöld en þrátt fyrir það er þetta aldrei auðvelt. Þú þarft að berjast fyrir því að komast tíu stigum yfir og berjast fyrir því að komast 20 stigum yfir og síðan að berjast fyrir því að halda muninum. Ég ber mikla virðingu fyrir Njarðvík því þeir gera það að verkum að maður þarf að berjast fyrir öllu í leiknum."

„Við vorum 20 stigum yfir þegar um sex mínútur voru eftir og ég var að segja við mína menn að slaka ekki á, því við munum hvað gerðist í Njarðvík. Þar vorum við 10 stigum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir og þeir náðu að jafna okkur. Það sem við gerðum vel í kvöld var að við hættum ekki þótt forystan hafi verið orðin þægileg."

Keflvíkingar geta ekki endað neðar en í áttunda sæti og því öruggir með sæti í úrslitakeppninni. Andy var því spurður hvort verkinu væri lokið. „Heldur betur ekki, ekki spyrja fólk hér í Keflavík hvort verkinu sé lokið, því langar í miklu meira. Við tökum alltaf einn leik í einu og reynum að bæta okkur eins vel og við getum eftir því sem líður á leiktíðina. Við höfum þurft að glíma við meiðsli sem hafa gert okkur erfitt fyrir. Magnús er kominn aftur sem er mjög ánægjulegt, hann er svo heilsteyptur körfuknattleiksmaður og gefur hann okkur heilmikið."

„Við unnum 12 leiki án hans þannig að nú þegar við höfum fengið hann aftur þá gerir hann okkur mikið sterkari fyrir lokaátökin."



Keflavík-Njarðvík 105-84 (30-14, 18-24, 33-24, 24-22)

Keflavík: Michael Craion 31/7 fráköst/4 varin skot, Darrel Keith Lewis 24/7 fráköst, Gunnar Ólafsson 20/4 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 12/4 fráköst/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 9/6 stoðsendingar, Arnar Freyr Jónsson 4/4 fráköst/8 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 3, Andri Daníelsson 2.

Njarðvík: Logi Gunnarsson 25, Elvar Már Friðriksson 21/5 fráköst/5 stoðsendingar, Tracy Smith Jr. 19/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 6/6 fráköst, Ágúst Orrason 5, Hjörtur Hrafn Einarsson 4, Óli Ragnar Alexandersson 2, Maciej Stanislav Baginski 2.



Leikurinn var í beinni textalýsingu á Vísi og það má sjá hana hér fyrir neðan.

40. mínúta | 103-84: Leiknum er lokið. Hann stóð ekki undir væntingum en Keflvíkingar voru einfaldlega of stór biti fyrir granna sína í dag. Þeir jafna KR-inga á topp deildarinnar og koma sér lengra frá Njarðvík.

30. mínúta | 103-80: Keflvíkingar hafa skipt inn á ungum leikmönnum, þeir telja að þetta sé komið. Þeir eru farnir að leika sér, aftur er Craion með hálofta troðslu.

38. mínúta | 99-80: Darryll Lewis með körfu, Njarðvíkingar vannýta sókn og Craion nær síðan að komast á vítalínuna. Hann nýtti eitt víti. Elvar Már náði síðan að klór í bakkann áður en Darryll Lewis brýst að körfunni og leggur boltann ofan í. Logi reynir síðan að halda sínum mönnum nærri.

37. mínúta | 81-74: Það er tekið leikhlé. Arnar Freyr Jónsson hefur lokið leik með fimm villur.

36. mínúta | 94-74: Arnar Freyr Jónsson eykur muninn í 20 stig áður en hann stelur boltanum, kemur honum á Darryll Lewis sem er brotið og hann tekur víti. Hann nýtti bæði. Baginski minnkaði muninn aftur í 20 stig en síðan klúðruðu bæði lið boltanum klaufalega.

35. mínúta | 90-72: Logi Gunnarsson bætti við þriggja stiga körfu og það er aftur tekið leikhlé. 18 stiga munur en Andy Johnston þjálfari heimamanna er ekki ánægður með varnarleikinn undanfarnar mínútur.

34. mínúta | 90-69: Tracy Smith Jr. nær að bæta við tveimur stigum en þá skýst Craion framhjá honum og leggur boltann í körfunna, of snöggur fyrir hann.

33. mínúta | 88-67: Valur Valsson skoraði úr þriggja stiga skoti en Elvar Már svaraði í sömu mynt. Gummi Jóns. bætti síðan tveimur stigum í sarpinn fyrir heimamenn og það er tekið leikhlé.

31. mínúta | 83-64: Craion opnaði stigaskorið en Magnús Már Traustason svaraði fyrir gestina.

31. mínúta | 81-62: Seinasti leikhluti hafinn og er ég að vona að Njarðvík nái að gera leik úr þessu en þeir þurfa heldur betur að spýta í lófanna til þess.

30. mínúta | 81-62: Keflavík náði tveimur sóknarfráköstum á seinustu mínútunni. Darryll Lewis komst síðan á vítalínuna og bætti við tveimur stigum. Njarðvík fór í lokasókn og Logi Gunnarsson komst á vítalínuna. Hann nýtti annað vítið. Þar með lauk fjórðungnum.

29. mínúta | 79-61: Darryll Lewis jók muninn í 20 stig en Logi Gunnarsson kom honum aftur í 18 stig af vítalínunni.

28. mínúta | 77-59: Logi Gunnarsson skoraði úr tveimur vítum en hinum megin á vellinum svaraði Valur Orri alsson með þriggja stiga körfu. Ágúst Orrason gerði síðan slíkt hið sama fyrir Njarðvík.

2. mínúta | 74-54: Gunnar Ólafsson! Aftur fyrir aftan bogann. Hann er búinn að setja þá nokkra þristana hér í kvöld.

26. mínúta | 71-52: Gunnar Ólafsson skoraði úr einu víti. Njarðvíkingar klikka á sinni sókn og Keflavík setti upp sína sókn sem endaði á því að Gunnar Ólafsson sökkti enn einum þristinum.

25. mínúta | 68-52: Það er verið að setja upp í skotsýningu, ef það er ekki Magnús Þór Gunnarsson sem er að skora þriggja stiga körfur, þá er það Logi Gunnarsson sem er að gera þetta. Stórskemmtilegt.

24. mínúta | 64-49: Ólafur Helgi Jónsson bætir við tveimur stigum hjá Njarðvík áður en títtnefndur Craion nær í villu og fer á línuna. Hann nýtti bæði vítin. LogiGunnarsson skoraði þá þriggja stiga körfu og Njarðvík stal boltanum og Elvar Már skoraði. Valur Orri Valsson svaraði með þrist.

23. mínúta | 59-42: Keflvíkingar með sirkussókn, Arnar Freyr Jónsson kastaði boltanum upp í loftið og þar kom svífandi Michael Craion náði í boltann og tróð honum í körfuna. Stórglæsilegt. Keflavík byrjar seinni hálfleikinn eins og þann fyrri.

21. mínúta | 55-40: Craion opnaði stigaskorið í seinni hálfleik og spilaði síðan góða vörn á Smith J. Darryll Lewis fór síðan fram og bætti við þremur stigum. Craion varði síðan skot og Gunnar Ólafsson geysti fram í hraðaupphlaup og skoraði. Ólafur Helgi kom Njarðvíkingum síðan á blað.

21. mínúta | 48-38: Seinni hálfleikur er hafinn. Ég vona að þetta verði meira spennandi en umfram allt að þetta verði hörkuleikur.

20. mínúta | 48-38: Keflvíkingar náðu boltanum en aftur kasta þeir honum útaf, Njarðvík skoraði og Darryl Lewis reyndi skot frá miðju sem geigaði. 10 stiga munur í hálfleik, gestirnir mættu alla vega í annan fjórðung en heimamenn náðu að halda þeim fyrir aftan sig.

20. mínúta | 48-36: Hálf mínúta eftir og það er tekið leikhlé. Craion bætti við tveimur stigum og heimamenn stálu síðan boltanum en náðu ekki að nýta sér það. Njarðvíkingar taka því næst seinasta skot hálfleiksins.

19. mínúta | 46-36: Hjörtur Hrafn Einarsson náði sóknarfrákasti sem hann skilaði en Maggi Gunnarss. svaraði um hæl með þriggja stiga körfu. Njarðvík tapar síðan boltanum.

19. mínúta | 43-34: Craion bætti við tveimur stigum og Elvar svaraði með einu af vítalínunni. Craion komst síðan sjálfur á vítalínuna og bætti við tveimur stigum.

18. mínúta | 39-33: Elvar Már Friðriksson hefur bætt við þremur stigum af vítalínunni og munurinn er kominn niður í sex stig.

17. mínúta | 39-30: Logi Gunnarsson býður upp á þrist en Gunnar Ólafsson sem hefur skorað öll stig heimamanna í fjórðungnum var snöggur að svara. Tracy Smith lagði síðan botlann í körfuna.

16. mínúta | 37-25: Gunnar Ólafsson aftur á ferðinni með þriggja stiga körfu, hann er að hitna. Logi Gunnarsson svarar með tveimur vítum hinum megin. Heimamenn eru að ná að halda muninum í tveggja stafa tölu.

15. mínúta | 34-23: Gunnar Ólafsson skoraði þriggja stiga körfu sem var jafnframt fyrstu stig heimamanna utan af velli í öðrum fjórðung en Tracy Smith komst á vítalínuna og nýtti tvö víti.

14. mínúta | 31-21: Það er tekið leikhlé. Njarðvíkingar hafa skorað sjö stig á móti einu Keflvíkinga og ætlar Johnston þjálfari að reyna að leiðrétta þetta. Það var samt alveg vitað mál að gestirnir kæmu brjálaðir í annan leikhluta.

13. mínúta | 31-19: Keflavík stal boltanum og geystist í hraðaupphlaup sem endaði með því að Gunnar Ólafsson komst á vítalínuna. Hann nýtti annað vítið en stöðvaði sprett gestanna.

12. mínúta | 30-19: Njarðvíkingar byrja annan fjórðung á 0-5 sprett og laga stöðuna. Tracy Smith hefur skorað öll stigin.

11. mínúta | 30-16: Tracy Smith opnar stigaskorið í öðrum fjórðung með því að setja niður tvö víti.

11. mínúta | 30-14: Annar fjórðungur hafinn og Njarðvík átti fyrstu sókn. Hún gekk ekki eftir en Keflvíkingar fengu síðan dæmt á sig 3 sekúndur.

10. mínúta | 30-14: Elvar Már skoraði seinustu stig fjórðungsins og tíminn leið út. 16 stiga munur eftir einn leikhluta og hefur gengið betur hjá heimamönnum að spila körfubolta.

9. mínúta | 30-12: Maggi Gunnarss. stimplar sig inn með þriggja stiga skoti sem mætti segja að sé vörumerki hans. 18 stiga munur.

8. mínúta | 27-12: Elvar Már Friðriksson hefur lagað stöðuna í 15 stiga mun og Gunnar Ólafsson misnotaði tvö vítaskot. Tracy Smith lagði síðan boltann í körfuna en Craion svarar um hæl. Heimamenn eiga ekki í neinum erfiðleikum með að opna vörn Njarðvíkur.



7. mínúta | 25-8:
Njarðvíkingar náðu loksins að skora en Valur Orri Valsson var ekki lengi að svara með því að sökkva þriggja stiga skoti.

7. mínúta | 22-6: Jahérna, Keflvíkingar leika á alls oddi í upphafi og var Craion að troða harkalega í körfuna og munurinn er orðinn 16 stig.

6. mínúta | 18-6: Darryl Lewis byrjar mjög vel í kvöld, var að skora sitt sjöunda stig í fyrsta leikhluta.

5. mínúta | 16-6: Tíu stiga munur eftir að Arnar Freyr Jónsson leggur boltann í spjaldið og ofan í. Keflvíkingar byrja betur hér í kvöld og í þessum töluðu orðum er Magnús Þór Gunnarsson að koma inn á.

5. mínúta | 14-6: Keflavík stal boltanum og geysti í sókn. Skot geigaði en Craion reif niður sóknarfrákast og lagði boltann ofan í. Einar Árni hefur séð nóg og tekur leikhlé fyrir gestina.

4. mínúta | 12-6: Darryl Lewis braust upp að körfunni, lagði boltann ofan í og fékk villu dæmda. Hann sendi vítaskotið rétta leið. Gunnar Ólafsson fór síðan í hraðaupphlaup og skoraði og kemurheimamönnum 6 stigum yfir

4. mínúta | 7-6: Craion bætti í fyrir gestina en Logi Gunnarsson náði hraðaupphlaupi og lagði boltann í körfuna.

2. mínúta | 5-4: Tracy Smith kom gestunum yfir í smá stund en Craion var fljótur að svara fyrir heimamenn með góðu stökkskoti.

2. mínúta | 2-2: Bæði lið hafa fengið sóknir en nýtt þær illa. Tracy Smith fór síðan á vítalínuna og jafnaði leikinn.

1. mínúta | 2-0: Leikurinn er hafinn og það eru heimamenn sem hefja sókn og skora.

Fyrir leik: Núna verða liðin kynnt til leiks og þá er allt að verða tilbúið svo að við getum kastað bolta upp.

Fyrir leik: Seinustu deildarleikir liðanna fóru þannig að Keflavík gerði góða ferð vestur og lagði KFÍ 75-93 á meðan Njarðvík tók á móti Val í Ljónagryfjunni og vann 37 stiga sigur 112-75.

Fyrir leik: Smá tölfræði fyrir leik. Elvar Már Friðriksson er atkvæðamestur hjá Njarðvíkingum en að hann skorar að meðaltali 23,9 stig að meðaltali í leik ásamt því að finna félaga sína með 7,3 stoðsendingum í leik. Í liði heimamanna er það Michael Craion sem leiðir tvo tölfræðiþætti og er þar með talinn atkvæðamestur. Hann skorar að meðaltali 20,1 stig að meðaltali í leik og hrifsar til sín 12,9 fráköst að meðaltali. Hann hótar semsagt tvöfaldri tvennu í hverjum leik.

Fyrir leik: Fyrri leikur liðanna endaði með þriggja stiga sigri Keflvíkinga eftir spennuþrungnar lokamínútur þar sem staðan var 85-85 þegar fimm sekúndur lifðu leiks. Gunnar Ólafsson tryggði síðan Keflvíkingum sigurinn með þriggja stiga skoti þegar um ein sekúnda var eftir af leiknum. Við vonum náttúrulega að sama spenna verði í leiknum í kvöld.

Fyrir leik: Liðin eru byrjuð að hita upp af fullum krafti og stúkan er að fyllast og það hálftíma fyrir leik. Það er alltaf gaman að sjá þegar hallirnar fyllast enda á þessi leikur ekkert minna skilið en fullt hús áhorfenda.

Fyrir leik: Velkomin í þessa beinu lýsingu frá grannaslag Keflavíkur og Njarðvíkur í TM-höllinni í Keflavík.

2. mínúta | 2-2:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×