Handbolti

Strákarnir þurfa hjálp til að komast í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Vísir/Daníel
Þrátt fyrir sigur á Makedóníu í dag þurfa strákarnir okkar aðstoð til að komast áfram í undanúrslit EM í Danmörku.

Ísland er nú komið með fimm stig í milliriðli 1 og getur með sigri á gestgjöfum Danmörku á miðvikudag komist upp í sjö stig.

Danmörk er með sex stig og Spánn fjögur en bæði lið eiga þó leik til góða síðar í dag. Spánn leikur gegn Austurríki nú síðdegis og Danmörk gegn Ungverjalandi síðar í kvöld.

Danir komast í átta stig með sigri í kvöld og væru þar með öruggir með efsta sæti riðilsins og sæti í undanúrslitunum. Þeir hefðu því að engu að keppa gegn Íslandi á miðvikudaginn.

Tvö efstu liðin úr hvorum milliriðli á EM í Danmörku komast í undanúrslit keppninnar sem fara fram á föstudaginn.

Ef Spánn vinnur lærisveina Patreks síðar í dag geta heimsmeistararnir tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri á Makedóníu klukkan 15.00 á miðvikudaginn. Ísland væri þar með úr leik í baráttunni um sæti í undanúrslitum þegar kæmi að leiknum gegn Dönum.

Auk undanúrslitaleikjanna er spilað um fimmta sæti mótsins. Ísland á góðan möguleika á að komast í þann leik en til þess þurfa strákarnir að ná þriðja sætinu í milliriðlinum.

Ef svo fer að Ísland og Ungverjaland verði jöfn að stigum í 3.-4. sæti riðlakeppninnar mun markatala ráða því hvort liðið lendi ofar þar sem liðin skildu jöfn í viðureign sinni í Álaborg í síðustu viku.

Sem stendur er Ísland með markatöluna 117-114 en Ungverjaland 85-86. Ungverjar spila gegn Dönum síðar í kvöld og svo gegn Austurríki á föstudag.


Tengdar fréttir

Ásgeir Örn: Gleymdi að setja hann í netið

Ásgeir Örn Hallgrímsson var valinn maður leiksins eftir sigur Íslands á Makedóníu á EM í handbolta í dag. Hann skoraði sex mörk í tveggja marka sigri, 29-27.

Aron: Þeir fengu blóð á tennurnar

"Þetta var mjög erfiður leikur,“ sagði landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson eftir tveggja marka sigur Íslands á Makedóníu, 29-27, á EM í handbolta í dag.

Rúnar: Við vorum svalir

"Þetta var nokkuð jafnt undir lokin en ég var aldrei neitt hræddur," sagði stórskyttan Rúnar Kárason eftir sigurinn á Makedóníu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×