Körfubolti

Popovich: Parker er búinn á því, líkamlega og andlega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker.
Tony Parker. Vísir/Getty
Tony Parker, leikstjórnandi San Antonio Spurs, var ekki með liðinu í nótt í sigrinum á Los Angeles Clippers og mun ennfremur missa af fleirum leikjum á næstunni.

Gregg Popovich, þjálfari Spurs, segir að leikmaðurinn verði frá í dágóðan tíma vegna ímissa meiðsla sem séu að hrjá Frakkann. Popovich ætlar að hvíla stjörnuleikmanninn sinn fyrir lok tímabilsins.

Popovich var ekki tilbúinn að gefa upp einhvern áætlaðan tíma á fjarveru Parker í viðtölum við blaðamenn en Frakkinn frábæri er meðal annars að glíma við verki í baki, nára og kálfa.

„Ég tel að hann sé bara búinn á því, líkamlega og andlega. Hann var bara 65 til 70 prósent í síðustu leikjum og krækti í einhver lítil meiðsli til viðbótar í hverjum leik. Hann er slæmur í öxlinni, mjöðminni og í kálfanum og nú er hásin farin að angra hann líka," sagði Gregg Popovich.

Tony Parker er með 17,7 stig og 6,2 stoðsendingar að meðaltali í leik á leiktíðinni en hann hefur lækkað sig í nær allri tölfræði frá því að síðasta tímabili þegar hann var eini leikmaður deildarinnar með meira en 20 stig og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Ég held bara að allt álagið á hann á síðustu þremur árum sé farið að taka sinn toll. Hann er búinn að spila heilt NBA-tímabil öll árin í viðbót við það að spila með franska landsliðinu yfir sumarið. Ég er bara að reyna að sjá til þess að hann verði klár í lokakafla tímabilsins," sagði Popovich.

Cory Joseph byrjaði í stað Parker á móti Los Angeles Clippers og var með 7 stig og1 stoðsendingu en Patrick Mills átti síðan mjög góða innkomu af bekknum og skoraði 25 stig og gaf 5 stoðsendingar á 27 mínútum þar af komu 16 stiga hans í lokaleikhlutanum. 

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×