Ungmennahúsið á Akranesi er með opið fyrir fötluð ungmenni á daginn á meðan á verkfalli framhaldsskólakennara stendur.
„Það er alltaf opið hjá okkur yfir veturinn,“ segir Heiðrún Janusardóttir, verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála hjá frístundamiðstöðinni Þorpinu í ungmennahúsinu. „Það er alltaf fólk hérna hjá okkur og krakkarnir geta komið þegar tími fellur niður í skólanum. Líka í desember og maí þegar skólarnir detta í prófatíma og skóladagar fatlaðra eru skertir.“
„Við lítum svo á að við séum að styðja við fatlaða krakka í frístundum þeirra hvenær sem þær eru,“ segir hún. „Sá sem er með fötlun þannig að hann þurfi aðstoð í frístundum, þá fær hann hana.“
Þau líti ekki á þetta sem verkfallsbrot enda geti markmið verkfallsins varla verið að þessi hópur ungmenna lendi á hrakhólum.
Formaður verkfallsstjórnar félags framhaldsskólakennara, Sigurður Ingi Andrésson, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að þau litu ekki á það sem verkfallsbrot að bæjarfélög bjóði upp á frístundarúrræði fyrir fötluð ungmenni á daginn.
„Ef það eru ekki okkar félagsmenn sem fengnir eru til starfa og engin kennsla sem fer fram, höfum við ekkert á móti því, það er bara ekki á okkar vegum,“ segir Sigurður.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtaka Þroskahjálpar sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að borgaryfirvöld segðu það ekki á sína ábyrgð að setja fjármagn í frístundarúrræði fyrir fötluð börn. Auk þess sem slíkt væri verkfallsbrot.
Markmið verkfalls varla að fatlaðir lendi á hrakhólum

Tengdar fréttir

Margir nemendur í vandræðum
Landssamtökin Þroskahjálp hafa skorað á Félag framhaldsskólakennara að veita tafarlaust undanþágu frá verkfalli framhaldsskólakennara sem sinna kennslu fatlaðra nemenda.

Engar fjárheimildir til að mæta vanda fatlaðra ungmenna
"Dóttur minni er keyrt heim á morgnanna úr skammtímavistun þar sem hún dvelur aðra hvora viku á meðan á verkfallinu stendur,“ segir Atli Lýðsson, faðir 17 ára fatlaðrar stúlku í Reykjavík.

Frístundaúrræði fyrir fatlaða ekki verkfallsbrot
Foreldrar fatlaðara barna og ungmenna hafa fengið þau svör frá Reykjavíkurborg að frístundarúrræði og dvöl yfir daginn á skammtímavistun fyrir börnin myndu vera verkfallsbrot.