Fótbolti

Óvæntur sigur Catania á Ítalíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mariano Izco skorar annað mark Catania gegn Roma í dag.
Mariano Izco skorar annað mark Catania gegn Roma í dag. Vísir/Getty
Fimm leikjum er lokið í ítölsku úrvalsdeildinni.

Birkir Bjarnason sat allan tímann á bekknum þegar Sampdoria tapaði fyrir Parma á útivelli. Antonio Cassano og Ezequiel Schelotto skoruðu mörk Parma.

Botnlið Catania skellti Roma á heimavelli með fjórum mörkum gegn einu, en þetta var aðeins þriðja tap Rómverja í deildinni í vetur. Mariano Izco skoraði tvö mörk fyrir Sikileyjarliðið og þeir Gonzalo Bergessio og Pablo Barrientos eitt hvor, en allir markaskorarar Catania í dag eru argentínskir. FransescoTotti skoraði eina mark Roma.

Torino bar sigurorð af Chievo á útivelli, en eina mark leiksins var sjálfsmark GennarosSardo. Chievo lék síðustu 25 mínútur leiksins einum færri eftir að SergioPellissier fékk að líta rauða spjaldið, en hann hafði aðeins verið inn á vellinum í fimm mínútur þegar hann var rekinn út af. Torino situr enn í 6. sæti deildarinnar sem gefur þátttökurétt í forkeppni Evrópudeildarinnar að ári.

Udinese vann sigur á Livorno í miklum markaleik. Antonio Di Natale skoraði tvö mörk fyrir Udinese og þeir Emmanuel Badu, Roberto Pereyra og Gabriel Silva eitt mark hver. Brasilíumaðurinn Paulinho skoraði tvö mörk fyrir Livorno og Djamel Mesbah eitt.

Þá gerðu Genoa og Bologna markalaust jafntefli.

Í kvöld mætast síðan AC Milan og Internazionale í borgarslag.

Úrslit dagsins:

Parma 2-0 Sampdoria

Catania 4-1 Roma

Chievo 0-1 Torino

Udinese 5-3 Livorno

Genoa 0-0 Bologna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×