Fótbolti

Marquez verður liðsfélagi Emils Hallfreðssonar

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Marquez fagnar marki sínu gegn Króatíu á HM
Marquez fagnar marki sínu gegn Króatíu á HM vísir/getty
Rafa Marquez fyrrum varnarmaður spænska stórliðsins Barcelona er á leið til Evrópu á ný en hann mun ganga til liðs við Hellas Verona í ítölsku A-deildinni í fótbolta og leika þar með Emil Hallfreðssyni.

Marquez fór mikinn með Mexíkó í heimsmeistarakeppninni í Brasilíu í sumar en hann hefur leikið Leon í heimalandi sínu síðustu ár.

Marquez var fyrirliði Leon sem varð mexíkóskur meistari tvö síðustu árin en hann kom til Leon frá New York Red Bull þar sem hann fann sig ekki.

Marquez lék í sjö ár með Barcelona og var um tíma liðsfélagi Eiðs Smára Guðjohnsen þar.

Leon sendi frá sér fréttatilkynningu nú í kvöld sem segir að Marquez muni ganga til liðs við Verona áður en tímabilið hefst á Ítalíu.

Verona hafnaði í ellefta sæti ítölsku deildarinnar á síðustu leiktíð eftir að hafa verið lengi vel fyrir ofan miðja deild og í baráttu um Evrópusæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×