„Það var við ofurefli að etja í dag,“ sagði Aron Pálmarsson eftir að Ísland tapaði fyrir Danmörku í gær, 32-23, í lokaleik milliriðlakeppninnar í Herning. Eftir ágæta byrjun stungu Danir af í síðari hálfleik og sáu til þess að okkar menn ættu ekki afturkvæmt.
„Við spiluðum einfaldlega illa og þetta var hundleiðinlegur leikur. Það var frábær stemning í höllinni enda áhorfendur í miklu stuði. Í leiknum féll allt þeim í hag en engu að síður tel ég að það hafi verið algjör skandall að tapa svona stórt fyrir þeim.“
Strákarnir voru vel inni í leiknum í fyrri hálfleik en létu markvörðinn Jannick Green leika sig grátt. Hann varði sextán skot í fyrri hálfleik og alls 23 skot í leiknum.
„Við tókum margar slæmar ákvarðanir í fyrri hálfleik sem fóru illa með okkur. Ég og fleiri tókum til að mynda skot að óþörfu og fleira þannig lagað. Við hefðum átt að gera miklu betur.“
Hann segir að Ísland hafi einfaldlega hitt á slæman leik. „Við vorum bara lélegir, sérstaklega í seinni hálfleik. Sóknarleikurinn var skelfilegur – varnarleikurinn ekkert spes og þá kom markvarslan ekki með. Þá var þetta mjög erfitt.“
Ísland mætir Póllandi í leik um fimmta sætið í Herning á morgun. „Við getum glaðst yfir því enda væri fimmta sætið frábær árangur. Það er líka ágætt að fá einn leik til viðbótar svo fólk muni ekki bara eftir skítaleik eins og þessum.“
Þetta var hundleiðinlegur leikur
Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar

Mest lesið


Skytturnar skildu jafnar við Býflugurnar
Enski boltinn



Formaðurinn ósáttur við tveggja leikja bannið og aganefnd
Íslenski boltinn

Adam Ægir á heimleið
Íslenski boltinn



Grealish og Foden líður ekki vel
Enski boltinn
