Íslenski boltinn

Heldur Baldur áfram að hrella FH-inga?

Baldur skorar hér eitt af sex mörkum sínum gegn FH.
Baldur skorar hér eitt af sex mörkum sínum gegn FH. vísir/daníel
Tveir leikir fara fram í Pepsi-deild karla í dag, en þar mætast fjögur efstu lið deildarinnar. Stjarnan heimsækir Víkinga og FH tekur á móti KR, en með þessum leikjum lýkur 14. umferð.

Sú var tíðin að FH hafði heljartök á KR, en Hafnarfjarðarliðið vann 14 af 16 leikjum liðanna í deild og bikar á árunum 2004-2010.

En eftir að Rúnar Kristinsson tók við KR hefur dæmið snúist við. Vesturbæjarliðið tapaði reyndar fyrstu tveimur leikjum sínum gegn FH undir stjórn Rúnars (4-0 í bikarúrslitum og 0-1 í Pepsi-deildinni 2010), en síðan hefur KR aðeins tapað tvisvar sinnum fyrir FH. Frá því að tímabilið 2011 hófst hafa KR og FH mæst níu sinnum í deild og bikar; KR hefur unnið sjö þessara leikja, en FH tvo.

Enginn KR-ingur virðist njóta þess jafn mikið að spila gegn FH og Baldur Sigurðsson. Hann hefur skorað í fimm af níu leikjum liðanna síðan 2011, eða samtals sex mörk. Sé litið nánar á markatölfræði Mývetningsins síðan 2011 kemur í ljós að sex af 28 mörkum hans í deild og bikar hafa komið gegn FH, eða 21% af öllum mörkum hans.

Baldur hefur verið næst duglegastur að skora gegn Keflavík, hans gamla liði, en hann hefur skorað fimm mörk gegn Suðurnesjaliðinu.

Rúnar segir í samtali við Fréttablaðið að hans menn muni spila til sigurs í kvöld, líkt og ávallt. „Við áttum okkur á því að það verður erfitt að blanda okkur í toppbaráttuna en við munum gefa allt okkar í leikinn,“ sagði hann en KR er níu stigum á eftir FH. „Það er oftast skemmtilegt að spila í Hafnarfirðinum og þetta verður hörkuleikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×