Handbolti

Siggi Raggi: Árangur landsliðsins hefur vakið athygli

Eiríkur Stefán Ásgeirrson skrifar
Sigurður Ragnar verður Rúnari til aðstoðar.
Sigurður Ragnar verður Rúnari til aðstoðar. vísir/stefán
Sigurður Ragnar Eyjólfsson var í gær ráðinn aðstoðarþjálfari Rúnars Kristinssonar hjá Lilleström næstu þrjú árin. Sigurði Ragnari, sem lét af störfum sem þjálfari ÍBV í Pepsi-deild karla í haust, stóð einnig til boða starf tækniráðgjafa hjá ástralska knattspyrnusambandinu.

Sigurður Ragnar ákvað að taka slaginn með Rúnari en báðir gerast nú þjálfarar í atvinnumannadeild í fyrsta skipti á ferlinum. Hann segir það jákvætt að íslenskir þjálfarar séu á óskalista erlendra félaga.

„Árangur A-landsliðsins hefur vakið athygli og það er jákvætt fyrir íslenska þjálfara að það sé útrás hjá þeim. Þjálfarar heima sjá að þeir eiga möguleika á því að komast út ef þeir standa sig vel og vonandi fylgja fleiri í kjölfarið,“ sagði Sigurður Ragnar við Fréttablaðið í gær.

„Ég tel að þetta sé mikilvægt fyrir þroskaferli þjálfara auk þess sem sú reynsla og þekking sem þeir afla sér á erlendri grundu skilar sér svo aftur í íslenska knattspyrnu þegar þeir snúa aftur heim. Þetta er því afar jákvætt fyrir íslenska þjálfara,“ segir hann enn fremur.

Sigurður Ragnar var lengi fræðslustjóri KSÍ og þjálfari A-landsliðs kvenna, sem hann kom tvívegis í úrslitakeppni stórmóts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×