Fótbolti

Dóra, Edda og Þóra fengu allar málverk frá KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir með málverkin sín.
Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir með málverkin sín. Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Knattspyrnukonurnar Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir fengu allar sérstaka viðurkenningu á Ársþingi KSÍ um helgina.

Dóra, Edda og Þóra eru þrjár af fjórum konum sem hafa spilað hundrað A-landsleiki fyrir Ísland. Edda náði því árið 2013 en Dóra María og Þóra spiluðu báðar sinn hundraðasta landsleik á síðasta ári.

Dóra, Edda og Þóra fengu að þessu tilefni allar glæsilegt málverk að gjöf frá KSÍ til að þakka þeim fyrir magnað framlag til íslenska fótboltans á sínum ferli.

Katrín Jónsdóttir var sú fyrsta til að spila hundrað leiki fyrir íslenska kvennalandsliðið og er einnig sú sem hefur spilað þá flesta eða 133 talsins.

Líkur er á að enginn þeirra bæti við fleiri landsleikjum. Edda,  Katrín og Þóra eru hættar að spila og þótt að Dóra María hafi ekki gefið það formlega út þá hefur hún væntanlega spilað sinn síðasta landsleik líka.

Dóra María er sú eina af þessum fjórum sem náði að spila hundraðasta landsleikinn sinn fyrir þrítugt en hún verður ekki þrítug fyrr en seinna á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×