Skoðun

Get ég safnað mér 5 milljónum í eigið fé til íbúðakaupa með þau laun sem ég hef?

Þorgrímur Einar Guðbjartsson skrifar
Það var í fréttum á dögunum að til þess að fólk geti keypt íbúð sem kostar 30 milljónir, þurfi viðkomandi að eiga a.m.k. 5 milljónir í eigið fé.  Í kjölfar þess, og frétta um að framundan sé um 23% hækkun á húsnæðisverði næstu 3 ár, og að Starfsgreinasambandið setti fram kröfu um að lágmarkslaun verði 300 þúsund kr. á mánuði, ákvað ég ( þó að ég sé ekki hagfræðingur eða reiknimeistari ) að setja upp dæmi, sem kannski er raunhæft og kannski ekki, um 5 manna fjölskyldu sem hefur áhuga á því að kaupa sér húsnæði.

Forsendurnar sem ég gef mér eru þessar:  Þetta er 5 manna fjölskylda, gift hjón með 3 börn.  Hjónin eru 27 ára gömul, hún vinnur hjá ríkinu og hann á almennum vinnumarkaði. Konan er ekki með neina yfirvinnu, fær laun samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og ríkisins og er í launaflokki 27, þrepi 4 og fær því heildarlaun kr:  335.502 eða kr: 201.377 eftir skatt (37%).  Ég dreg ekki frá í kaupinu aðrar greiðslur, svo sem lífeyrissjóð eða stéttarfélagsgjald.  Maðurinn er 27 ára almennur verkamaður og þiggur laun samkvæmt kjarasamningi við starfsgreinasambandið og er í launaflokki 24 eftir 7 ára vinnu, fær 253.709 í mánaðarlaun +  tveggja tíma yfirvinnu á dag. Það gerir 105.390 kr., alls 359.099 kr.

Þau eru í leiguíbúð á fjórðu hæð í blokk á Meistaravöllum og greiða fyrir hana 225.000 kr. á mánuði.  Fyrir skemmstu endurnýjuðu þau bílinn og keyptu Chevrolet Captiva 2008 árgerð og greiddu fyrir hana kr 2.400.000 kr., hvar þau tóku lán fyrir 80% ( 1.900.000 ) greiðslunnar til 5 ára og er mánaðarleg afborgun því um það bil 35.000 kr.

20% greiðslunnar voru þau búin að ná að spara uppí útborgun í íbúð, en urðu að nota smá af þeirri summu í þessi bílakaup.  Þau eiga í dag á sparibók, 1.100.000 sem þau eru búin að ná að spara á síðustu 8 árum, síðan þau stofnuðu til fjölskyldu.  Hvorugt þeirra hjóna greiðir eða þiggur meðlag í þessu dæmi.  Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara þurfa þau 346.169 kr. á mánuði til aðframfleyta þessari 5 manna fjölskyldu.

Þau eru ekki með of mikið fé handa á milli og fara ekki í sumarfrí til útlanda, en taka bústað á leigu eina viku á ári og hafa náð að lágmarka kostnað við 5 vikna sumarfrí niður í 180.000 kr., þar með talið ferðalög, gisting og afþreying.  Þá reikna ég einnig inn í dæmið að þau geri ráð fyrir a.m.k. 20.000 kr. í óvænt útgjöld í hverjum mánuði.

Þá lítur þetta svona út:

Laun hans                          kr: 276.442         á ári kr: 3.317.304

Laun hennar                      kr: 201.377          á ári kr: 2.416.524

Alls laun:                                                        á ári kr: 5.733.828

Útgjöldin eru þá svona:

Húsaleiga                            kr: 225.000          á ári kr: 2.700.000

Framfærsla                        kr: 346.169          á ári kr: 4.154.028

Afborgun af bíl                 kr:  35.000           á ári kr: 420.000

Sumarfríið                          kr: 15.000            á ári kr: 180.000

Ófyrirséð útgjöld             kr: 20.000            á ári kr: 240.000

Alls útgjöld því                                                 á ári kr: 7.694.028

Eða tap á rekstri heimilisins um kr: -1.960.200

Þá sjáum við í hendi okkar að þetta gengur ekki upp.  Þau verða að afla hærri tekna til að ná að gera upp dæmið.

Þau ákveða að gera eftirfarandi breytingar:

Finna ódýrara húsnæði, svipuð stærð í m2 en leigan 180.000 kr. eða á ári kr: 2.160.000.

Hann kemst í nýja vinnu og hækkar kaupið uppí 320.000 kr. eða á ári kr: 3.840.000.

Hún heldur sinni vinnu en fær auka vinnu sem gefur  80.000 kr. eða á ári kr: 960.000.

Hennar aðaltekjur 201.377 kr. eða á ári kr: 2.416.524.

Þannig að með þessum breytingum ná þau að koma tekjum sínum í kr / ár:       7.216.524

Og lækka útgjöldin vegna hagstæðari leigu, niður í kr/ár:  7.154.028

Sem gefur þeim því mismun uppá kr/ár:   62.496

Þennan mismun hafa þau ákveðið að leggja til hliðar til íbúðakaupa þegar þau hafa náð þessum 5 milljónum sem þarf að eiga til að geta keypt 30 milljóna króna húsnæði.  Þetta þýðir í raun að það tekur þau um 80 ár að spara fyrir þessari útborgun, miðað við að húsnæðisverðið hækki ekki.

Þá hlýt ég að spyrja: Hvað er það sem er að valda hækkun á húsnæðisverði þegar borðleggjandi er að fáir hafa í raun getu til að kaupa húsnæði eins og staðan er í dag?  Eru það húsnæðisleigufélög sem eru að kaupa þessar íbúðir til endurleigu?  Ef þetta er raunin, að það þurfi 5 milljónir kr. í eigið fé til að geta keypt 30 milljóna króna íbúð, af hverju eru þá ekki launin hærri?  Hvernig stendur á því að þetta bil er svona langt, þ.e. milli tekna og íbúðarverðs? Ég get því miður ekki dregið aðra ályktun af þessu hér að ofan, en að húsnæðisverð sé í dag algert rugl!

p.s

Athugið að frá launum dreg ég eingöngu skatt 37% af heildartekjum mínus 52.000 kr. persónuafslátt.

p.s.s.

Ef þau hefðu nú verið varkárari í bólinu og ættu aðeins 2 börn, tæki það þau ekki nema 9 ár að safna fyrir útborguninni :) - að því gefnu að þau eignist ekki fleiri börn á þeim tíma.

Heimilda var aflað á netinu á vefunum:  ums.is, sgs.is, mbl.is húsnæði til leigu, og bilasolur.is.




Skoðun

Sjá meira


×