Sport

ÍR meistari í bæði karla- og kvennaflokki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aníta var hluti af öflugu liði ÍR.
Aníta var hluti af öflugu liði ÍR. Vísir/getty
Nokkur Íslandsmet féllu á Bikarkeppni Frjálsíþróttasamband Íslands sem fer fram í Kaplakrika í dag. ÍR varð meistari í bæði karla- og kvennakeppni.

Kvennalið ÍR setti nýtt Íslandsmet í boðhlaupi 4x200 metrum. Tiana Ósk Whithworth, Dóróthea Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Eir Hermóðsdóttir og Aníta Hinriksdóttir skipuðu sveit ÍR. Þær hlupu á tímanum 1:38.54. Sveit FH kom næst á 1:40.27.

Karlalið ÍR vildi ekki vera síðra og bætti einnig við Íslandsmeti í sömu grein. Ívar Kristinn Jasonarson, Gunnar Guðmundsson, Krister Blær Jónsson og Egill Trausti Ómarsson hlupu fyrir ÍR. Þeir hlupu á 1:28.24.

Í heildarstigakeppninni vann ÍR með 21 stigi. ÍR hlaut 133 stig, FH 112 og Norðurland 90.

Í karlakeppninni hlaut ÍR 67 stig, FH 57 og Norðurland 40. Kvennamegin hlaut ÍR 66 stig, FH 55 og Norðlendingar 50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×