Íslenski boltinn

Dagný: Man alveg hvað hún heitir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagný lék sinn 50. landsleik gegn Noregi á föstudaginn.
Dagný lék sinn 50. landsleik gegn Noregi á föstudaginn. vísir/daníel
„Já, ég man mjög vel eftir honum,“ sagði knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir í samtali við Fréttablaðið um helgina, aðspurð hvort hún muni eftir fyrsta A-landsleiknum sem hún spilaði.

Rétt rúm fimm ár eru síðan Dagný þreytti frumraun sína með landsliðinu en fyrsti leikurinn var gegn stórliði Bandaríkjanna á Algarve-mótinu í Portúgal.

Þá var Dagný 18 ára og með stjörnur í augunum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Í dag er Dagný 23 ára, leikmaður Bayern München og leikur sinn 51. landsleik þegar Ísland mætir Bandaríkjunum á Algarve-mótinu á morgun.

„Ég byrjaði inni á og viðurkenni að ég var frekar stressuð og með stjörnur í augunum að mæta þessum stelpum. Það verður aðeins öðruvísi að mæta þeim á morgun,“ sagði Dagný um fyrsta landsleikinn en man hún hvernig henni gekk í honum?

„Örugglega skítsæmilega, miðað við fyrsta leik. Ekkert frábærlega og ekkert illa heldur,“ sagði hún en Ísland tapaði leiknum 2-0, þar sem bæði mörkin komu á þriggja mínútna kafla í seinni hálfleik.

Það fyrra var sjálfsmark en Lauren Chaney skoraði seinna markið. Ísland átti þó góða möguleika á að fá eitthvað út úr leiknum en hinn þekkti markvörður Bandaríkjanna, Hope Solo, varði tvær vítaspyrnur frá íslenska liðinu.

Dagný spilaði í fjögur ár með liði Florida State í bandaríska háskólaboltanum við góðan orðstír. Fjórða og síðasta árið hennar í Florida State var draumi líkast en þá varð liðið bandarískur háskólameistari, í fyrsta sinn í sögu skólans. Dagný var fyrirliði Florida State og var valin í lið ársins í háskólaboltanum. Hún kannast við nokkra leikmenn bandaríska liðsins frá skólaárunum vestanhafs.

„Það eru fjórar sem ég spilaði á móti og stelpan sem er á miðjunni hjá þeim, Morgan Brian, var valinn besti leikmaður háskólaboltans þegar ég var valin næstbest. Ég gleymi því ekkert hvað hún heitir,“ sagði Dagný og hló við en þær Brian áttust þrisvar við á síðustu fjórum mánuðum Dagnýjar í skólanum.

Fyrir utan stelpurnar sem Dagný spilaði gegn í háskólaboltanum er bandaríska liðið frekar gamalt, en tólf af þeim 25 sem skipa leikmannahópinn á Algarve eru fæddar 1985 eða seinna. Til að mynda verður fyrirliði Bandaríkjanna, miðvörðurinn Christie Rampone, fertug á árinu en hún hefur spilað yfir 300 landsleiki.

Bandaríkin taka Algarve-mótið mjög alvarlega en liðið var saman í 90 daga fyrir mótið. Það verður því við ramman reip að draga hjá íslenska liðinu á morgun en það tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu.

„Auðvitað reikna allir með bandarískum sigri, en ef við spilum vel getum við alveg náð góðum úrslitum,“ sagði Dagný að lokum.


Tengdar fréttir

Stjörnuliðið á móti Sviss | Margrét Lára byrjar á bekknum

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur tilkynnt byrjunarliðið sitt fyrir fyrsta leik liðsins á Algarve-mótinu í Portúgal og hann treystir mikið á fyrrum og núverandi leikmenn Íslandsmeistara Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×