Innlent

Ný ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir mikilli lækkun skulda

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Ný ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir að hlutfall heildarskulda ríkissjóðs af landsframleiðslu fari lækkandi á næstu árum og verði komin undir 50 prósent árið 2019. Ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára var dreift á Alþingi í dag.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að þrátt fyrir að jákvæð teikn séu á lofti á öllum helstu sviðum ríkisfjármála séu ýmsir óvissuþættir fyrir hendi. Meðal annars útkoma kjarasamninga og afnám fjármagnshafta, sem þó sé ekki tekið inn í grunnviðmið áætlunarinnar.

Sjá einnig: Handbært fé ríkissjóðs tekur dýfu vegna skuldalækkunarinnar

Stefnt er að því að afkoma ríkissjóðs skili afgangi sem verði í lok tímabils áætlunarinnar nær 1,5 prósent af vergri landsframleiðslu; verði 40 milljarðar í lok tímabilsins.

Miðað er við að allar óreglulegar tekjur sem kunna að koma til á tímabilinu verði varið í að lækka skuldir og þar með til lækkunar á vaxtakostnaði ríkissjóðs. Það er breyting frá því sem nú er í gildi en óvæntur aukinn hagnaður af rekstri Landsbankans og Seðlabanka Íslands voru í fjáraukalögum settir í hraðari niðurgreiðslu skuldaniðurfærslu stjórnvalda.

Í áætluninni er gert ráð fyrir því að verðbólga haldist við 2,5 prósent viðmiðunarmörk Seðlabanka Íslands. Miðað við stöðuna í dag er svigrúm til nokkurrar hækkunar á verðbólgu á tímabilinu en verðbólga hefur ekki verið jafn lág í jafn langan tíma um þónokkurt skeið.

Samkvæmt áætluninni á að draga úr skattbyrði, til dæmis með lækkun tolla og frekari lækkunar tryggingargjalds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×