Innlent

Framkvæmdastjóri NATO heimsækir Ísland í annað skipti á níu mánuðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jens Stoltenberg.
Jens Stoltenberg. Vísir/Getty
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, kemur til Íslands á morgun, 16. apríl, í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Ráðherra mun funda með forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum upp úr hádegi á morgun og í kjölfarið með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í ráðuneytinu við Rauðarárstíg.

Annað kvöld verður svo boðið til kvöldverðar í ráðherrabústaðnum þar sem ráðherrarnir tveir auk Ólafar Nordal innanríkisráðherra verða á meðal gesta.

Reikna má með töluverðri öryggisgæslu vegna komu Stoltenberg líkt og var tilfellið þegar forveri hans, Anders Fogh Rasmussen, sótti landann heim fyrir um níu mánuðum eða í ágúst síðastliðnum.

Heimsækir Stofnun Árna Magnússonar

Framkvæmdastjórinn mun auk þess sem hann mun kynna sér varnartengda starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á Keflavíkurflugvelli og loftrýmisgæslu Bandaríkjanna, sem fram fer nú um stundir undir merkjum Atlantshafsbandalagsins.

Einnig mun Stoltenberg eiga fundi með forseta Alþingis og fulltrúum  utanríkismálanefndar þingsins, sem og skoða varðskipið Þór. Þá mun framkvæmdastjórinn heimsækja Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins heldur af landi brott að morgni föstudags að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Uppfært klukkan 13:59

Í fyrri frétt stóð að Stoltenberg myndi funda með iðnaðarráðherra. Hið rétta er að hann mun ræða við innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×