Íslenski boltinn

Freyr: Löglegt mark tekið af okkur | Óttar mögulega brotinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óttar Bjarni borinn af velli í kvöld.
Óttar Bjarni borinn af velli í kvöld. vísir/stefán
Freyr Alexandersson, annar þjálfara Leiknis, segir að hann sé ekkert mjög sáttur við að hafa fengið aðeins eitt stig á Stjörnuvellinum í kvöld.

„Ég er ekki sáttur við stigið, ekkert rosalega. En úr því sem komið var tökum við það. En mér finnst illa að okkur vegið þar sem við skorum löglegt mark sem er tekið af okkur,“ sagði Freyr og átti þar við atvik sem átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks.

Kolbeinn Kárason skoraði þá mark sem var dæmt af vegna brots á Gunnari Nielsen, markverði Stjörnunnar.

„Mér fannst þetta helvíti dýrt. Við vorum með tvo stóra menn sem standa alveg kyrrir og þeir hafa alveg skýr skilaboð með það að þeir eiga ekki að hamast í markverðinum. Þeir bara voru þarna.“

„Markvörðurinn dettur svo þarna fyrir framan hann og við neglum honum í þaknetið. Ég sá ekki alveg hvað gerðist en ég er með heimildir fyrir því að það hafi verið í 100 prósent lagi með þetta mark.“

Hann hrósaði sínum mönnum fyrir leikskipulagið en Leiknir spilaði með fimm manna varnarlínu í dag.

„Mér fannst þetta frábært. Við náðum að loka á flest allt sem þeir voru að reyna að gera og fannst við spila vel úr því sem við höfðum.“

Freyr þurfti að gera þrjár breytingar á byrjunarliði sínu í dag vegna meiðsla og þá fór Óttar Bjarni Guðmundsson af velli vegna meiðsla í lok fyrri hálfleiks.

„Lið sem er nýliði í deildinni vill ekki lenda í þessu. Strákarnir eru þó ekkert að detta í einhvern fórnarlambagír við það að fá nýtt upplegg og mér fannst þeir bregðast hratt við. Ég er stoltur af þeim, þetta heppnaðist mjög vel.“

Óttar var fluttur upp á sjúkrahús og Freyr segir að útlitið sé ekki gott.

„Hann fékk högg á lærlegginn og hann er í myndatöku til að kanna hvort hann sé brotinn. Hann er mjög kvalinn.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×