Fótbolti

Kristni Jakobssyni treyst fyrir að móta huga framtíðardómara UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson. Vísir/EPA
Kristinn Jakobsson, fyrrverandi FIFA-dómari í 17 ár og dómari í efstu deild karla í 21 ár, leiðbeinir nú ungum dómurum á CORE-námskeiði UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, en þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Kristinn dæmdi sína síðustu leiki á síðasta ári en síðasti leikur hans á Íslandi var úrslitaleikur FH og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn. Kristinn dæmdi síðan síðasta leikinn á ferlinum þegar St. Etienne frá Frakklandi og Quarabag frá Aserbaídsjan mættust í Evrópudeild UEFA í lok nóvember 2014.

Kristinn Jakobsson er samt fjarri því að vera hættur dómarastörfum þó hann sé ekki lengur að dæmi leiki í Pepsi-deildinni eða Evrópudeildinni. Kristinn er þessa dagan staddur á CORE-námskeiði fyrir dómara þar sem hann leiðbeinir ungum dómurum.

CORE-námskeiðið er fyrir unga og efnilega dómara víðsvegar að úr Evrópu en það er mikil viðurkenning fyrir bæði Kristinn Jakobsson og íslenska dómara að Kristinn fái boð um að vera kennari á þessum námskeiðum.

Margir íslenskir dómarar hafa sótt þessi námskeið en í ár voru fulltrúar Íslands þeir Ívar Orri Kristjánsson, Bryngeir Valdimarsson og Björn Valdimarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×