Skoðun

Hugleiðingar um kvenréttindi

Elín Birna Skarphéðinsdóttir. skrifar
Nú 19. júní verða hátíðarhöld til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi. Einnig minnumst við þess í haust að 40 ár eru liðin frá kvennafrídeginum 1975, þar sem konur lögðu niður störf sín til að krefjast jafnra launa á við karlmenn. Nú árið 2015 hafa hjúkrunarfræðingar lagt niður störf og fara fram á það sama og konurnar árið 1975.

Hjúkrunarfræðingar eru vel menntaður hópur en sá vandi virðist fylgja að hann saman stendur að mestum hluta af konum. Fjögurra ára háskólanám þessa hóps skilar enn aðeins um 80 prósent af þeim launum sem hefðbundin karlastétt með hliðstæða menntun aflar.

Kvenréttindi eru ekki eitthvað sem hægt er að skilgreina nokkurn veginn eða næstum því. Annað hvort eru konur og kvennastörf metin til jafns við hefðbundið karlmannsstörf eða jafnrétti ríkir ekki. Mér finnst klárt mál að framkoma ríkisins við hjúkrunarfræðinga í þeirra baráttu fyrir leiðréttingu á sínum launum til jafns við karla með svipaða menntun, hafi hingað til lýst vanvirðingu og komi til lagasetningar verður sú vanvirðing algjör.

Vilji til að jafna kjör kynjanna virðist vera meira í orði en á borði. Ég spyr mig einfaldlega hvort að við séum ekki komin lengra árið 2015? Fjörutíu árum eftir kvennafrídaginn og 100 árum frá því að kosningaréttur kvenna var tryggður.  Kosningarétturinn er enn okkar og þið kæru þingmenn eruð þeir sem munuð sækja umboð til okkar kjósenda aftur. Því spyr ég, er kynjajafnrétti þér hugleikið kæri þingmaður? Er ekki kominn tími til að jafna laun kynjanna?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×