Fótbolti

Pogba er ekki til sölu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pogba varð tvöfaldur meistari með Juventus á síðasta tímabili.
Pogba varð tvöfaldur meistari með Juventus á síðasta tímabili. vísir/getty
Franski miðjumaðurinn Paul Pogba er ekki til sölu segir Giuseppe Marotta, stjórnarformaður Juventus.

Hinn 22 ára gamli Pogba hefur m.a. verið orðaður við Barcelona en Joan Laporta, einn af frambjóðendunum í forsetakjöri Barcelona, hefur sagst ætla að kaupa Frakkann verði hann kosinn forseti Katalóníufélagsins í sumar.

„Þeir sem eru áhugasamir þurfa að tala við félagið en ekki við umboðsmanninn hans,“ sagði Marotta.

„Barcelona má ekki kaupa leikmenn og Juventus vill ekki selja Pogba,“ bætti Marotta við en Barcelona er í félagaskiptabanni fram á næsta ár.

Marotta viðurkenndi þó að viðræður hefðu átt sér stað milli Juventus og Barcelona undanfarna mánuði en ítrekaði að Pogba væri ekki til sölu.

Talsverðar breytingar hafa orðið á miðju Juventus í sumar. Andrea Pirlo er farinn til New York City í bandarísku MLS-deildinni og flest bendir til að Arturo Vidal sé á leið til Þýskalandsmeistara Bayern München.

Juventus er hins vegar búið að fá Sami Khedira, auk þess sem liðið gekk endanlega frá kaupunum á Roberto Pereyra.

Pogba kom til Juventus fyrir þremur árum og hefur síðan þá skorað 24 mörk í 129 leikjum með Tórínó-liðinu. Hann hefur þrívegis orðið ítalskur meistari með Juventus og einu sinni bikarmeistari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×