Sport

Aníta í 3. sæti | Tókst ekki að verja Evrópumeistaratitilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anítu tókst ekki að verja Evrópumeistaratitilinn sem hún vann fyrir tveimur árum.
Anítu tókst ekki að verja Evrópumeistaratitilinn sem hún vann fyrir tveimur árum. vísir/getty
Aníta Hinriksdóttir endaði í 3. sæti í úrslitum í 800 metra hlaupi á Evrópumóti 19 ára og yngri sem fer fram í Eskilstuna í Svíþjóð.

Aníta var fyrst eftir fyrri hringinn en gaf verulega eftir á lokasprettinum og missti tvo keppendur fram úr sér.

Anítu mistókst þannig að verja Evrópumeistaratitilinn sem hún vann á Ítalíu fyrir tveimur árum.

Aníta kom í mark á 2:05,04 mínútum en hin belgíska Renée Eykens varð hlutskörpust á tímanum 2:02,83. Sara Schmidt frá Þýskalandi endaði í 2. sæti á tímanum 2:04,55. Upplýsingar um tíma keppenda í úrslitahlaupinu má finna hér.

Aníta komst örugglega í úrslitahlaupið en hún var með besta tímann af öllum sem hlupu í undanrásunum. Aníta kom þá í mark á 2:05,01 mínútum.

Bein textalýsing:

Hlaup hálfnað:
Aníta er fyrst eftir 400 metrana.

Fyrir hlaup:
Þetta er að fara af stað. Okkar kona er tilbúin.

Fyrir hlaup:
Aníta keppti á EM innanhúss í Prag í mars þar sem hún endaði í 5. sæti. Þar var hún að keppa gegn mun eldri og reyndari hlaupurum en ÍR-ingurinn kom í mark á 2:02,74 mínútum. Umfjöllun Vísis um mótið má lesa hér.

Fyrir hlaup:
Aníta náði sér ekki nógu vel á strik í 800m hlaupinu á Smáþjóðaleikunum á Íslandi í síðasta mánuði. Aníta varð að sætta sig við silfurverðlaunin en hún hljóp á tímanum 2:09,10 mínútum. Hún vann hins vegar öruggan sigur í 1500m hlaupinu þar sem hún kom í mark á 4:26,37 mínútum. Besti tími hennar í 1500m hlaupi er 4:15,14 mínútur.

Fyrir hlaup:
Aníta var með besta tímann af öllum sem hlupu í undanrásunum en hún kom í mark á 2:05,01 mínútum. Hin þýska Kalis Mareen var með næstbesta tímann, 2:05,47, og landa hennar, Sarah Schmidt var með þriðja besta tímann, eða 2:05,85. Listann yfir keppendur í úrslitahlaupinu má finna með því að smella hér.

Fyrir hlaup:
Aníta er sú eina sem keppti til úrslita í 800m hlaupinu fyrir tveimur árum sem hleypur til úrslita í dag. Aníta var yngst keppenda í úrslitahlaupinu á EM 2013, aðeins 17 ára gömul, en Aníta er fædd 13. janúar 1996.

Fyrir hlaup:
Besti tími Anítu á árinu er 2:01,50 en hún hljóp á þeim tíma í Oordegem-Lede í Belgíu, 23. maí. Besti tími Anítu í greininni er hins vegar 2:00,49 sem hún náði á móti í Mannheim 30. júní 2013.

Fyrir hlaup:
Aníta vann, sem frægt er orðið, gullverðlaun í 800m hlaupi á EM ungmenna árið 2013 en þá var keppt í Rieti á Ítalíu. Aníta kom þá í mark á 2:01,14 mínútum, 32 hundraðhlutum úr sekúndu á undan Olenu Sidorska frá Úkraínu. Sama ár vann hún einnig til gullverðlauna á HM ungmenna í Donetsk í Úkraínu en þá hljóp Aníta á 2:01,13 mínútum.

Fyrir hlaup: Góðan daginn og velkomin í beina textalýsingu frá úrslitahlaupinu í 800 metra hlaupi kvenna á EM undir 19 ára og yngri í Eskilstuna í Svíþjóð þar sem Aníta Hinriksdóttir er á meðal keppenda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×