Skoðun

Jesús í Druslugöngunni

Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar
Í dag er haldin í fimmta sinn Druslugangan í Reykjavík, sem er farin til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning með því að vísa ábyrgðinni þangað sem hún á heima - til gerendanna. Prinsip Druslugöngunnar er einfalt: Að standa saman og skapa samkennd með þolendum ofbeldis.  Í stað þess að leita eftir afsökunum fyrir ofbeldinu í fari þolendans, hvernig hún eða hann var klæddur eða hvert hún eða hann lagði leið sína á tilteknum tíma, er sjónum beint að raunverulegri ástæðu ofbeldisins, sem er að einhver einstaklingur beitir annan ofbeldi. Slíkt er alltaf á ábyrgð gerandans. Aldrei þolandans.

Gangan í ár leggur í stað frá Hallgrímskirkju, sem er ekki bara mest áberandi bygging í Reykjavík heldur ein frægasta kirkja í heimi. Mér finnst það einstaklega viðeigandi og eflandi að Druslugangan verði til með því að fólk safnist saman í skjóli við byggingu sem er ekki bara helsta kennileiti borgarinnar, heldur er reist í minningu og helguð okkar manni frá Nasaret, Jesú Kristi Jósepssyni.

Það sem einkennir líf og starf Jesú er hvað hann gekk beint inn í aðstæður sem sköpuðust vegna fordóma og dómhörku í garð samferðafólks, ekki síst í tilfelli kvenna og reynslu þeirra. Jesús átti samneyti við druslur og mætti þeim á jafningjagrundvelli. Í guðspjöllunum lesum við um samtöl og samskipti sem Jesús átti við konur sem samfélagið hafði fordæmt á grundvelli reynslu af kynferðisofbeldi og kynhegðunar. Í samfylgd Jesú setjumst við niður með samversku konunni sem samfélagið leit niður á fyrir að hafa átt fullt af mönnum og við horfumst í augu við konuna sem átti að verða grýtt fyrir það að drýgja hór. Eins og Jesús stöndum við með konum sem samfélagið kallar druslur og skilum skömminni til þeirra sem beita aðra ofbeldi.

Það er maklegt og réttvíst að ganga Druslugönguna og vita að Jesús er með í för þegar við upprætum fordóma, dómhörku og ranglæti. Frá Hallgrímskirkju sækjum við styrk og innblástur til að ganga með náungakærleik og gegn ofbeldi og sinnuleysi. Gleðilega Druslugöngu! 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×