Fótbolti

Manchester City búið að samþykkja tilboð Roma í Dzeko

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Dzeko hefur setið töluvert á bekknum hjá Manchester City.
Dzeko hefur setið töluvert á bekknum hjá Manchester City. Vísir/Getty
Samkvæmt heimildum SkySports samþykkti Manchester City í dag tilboð ítalska félagsins Roma í bosníska framherjann Edin Dzeko. Mun hann ferðast til Ítalíu innan skamms til þess að ganga frá félagsskiptunum en talið er að Roma greiði 14 milljónir punda fyrir þjónustu hans.

Dzeko sem gekk til liðs við Manchester City í janúarglugganum 2011 fyrir 27 milljónir punda hefur leikið 130 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 50 mörk. Var hann hluti af liði Manchester City sem varð enskur meistari í tvígang ásamt því að vinna enska bikarinn og enska deildarbikarinn.

Þrátt fyrir að hafa yfirleitt skilað mörkum var Dzeko yfirleitt varaskeifa í liði Manchester City en hann lék aðeins 74 leiki í byrjunarliði Manchester City á þessum tíma en hann kom 56 sinnum inn af bekknum.

Hjá Roma hittir hann fyrir landa sinn Miralem Pjanic en hann er annar leikmaðurinn sem ítalska stórveldið fær til liðs við sig frá Englandi á eftir Wojciech Szczesny, pólska markverðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×