Sport

Segway-maðurinn stórhættulegi bað Bolt afsökunar | Hittust aftur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Song Tao og Usain Bolt.
Song Tao og Usain Bolt. Vísir/Getty
Kínverjinn Song Tao varð óvænt heimsfrægur í gær þegar hann keyrði niður gullverðlaunahafann Usain Bolt þegar Bolt var að fagna sigri í 200 metra hlaupinu á HM í frjálsum í Peking í Kína.

Song Tao vinnur sem myndatökumaður á mótinu og hefur verið að nota Segway-hjól til að komast sem fyrst á réttu staðina.

Song Tao var að elta Usain Bolt í gær þegar hann keyrði utan í rennu og missti algjörlega stjórn á hjólinu. Svo óheppilega vildi til að Usain Bolt var beint fyrir framan hann og Song Tao keyrði hann hreinlega niður.

Usain Bolt slapp með nokkrar skrámur og dýrmætustu fætur í heimi eru heilir sem betur fer. Myndbandið fór hinsvegar um netið eins og eldur í sinu.





Bolt er maður fólksins og fjölmiðlanna og Jamaíkamaðurinn grínaðist með atvikið á blaðamannafundi, fíflaðist bæði með það að Song Tao hafi reynt að drepa sig sem og að erkifjandi hans Justin Gatlin hafi borgað honum fyrir að gera þetta. Allt þó í gríni og með bros á vör.

Song Tao var þó ekki rekinn þrátt fyrir þetta slys og hann er nú mættur aftur til vinnu í Fuglahreiðrið. Song Tao hitti meðal annars Usain Bolt aftur þegar Bolt fékk gullið sitt afhent í verðlaunaafhendingunni fyrir 200 metra hlaupið. 

Song Tao bað Usain Bolt þá afsökunar og hélt síðan áfram vinnu sinni. Song Tao er mjög reyndur myndatökumaður og hefur unnið bæði á Asíuleikunum sem og á Ólympíuleikum. 

„Það mikilvægast er að það er allt í lagi með hann. Ég meiddi mig heldur ekki og er tilbúinn að fara að vinna á ný," sagði Song Tao við kollega sinn Shao Yi sem þýddi orð hans fyrir blaðamann Guardian.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×