Íslenski boltinn

Davíð Þór: Verður ekki þreytt meðan maður vinnur titla

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Davíð Þór átti frábæran leik í dag.
Davíð Þór átti frábæran leik í dag. vísir/þórdís
"Ég var næstum því búinn að gleyma því hvernig það er að lyfta bikurum. Nei, nei það er frábær tilfinning að ná að klára þetta og við erum ótrúlega ánægðir með tímabilið," sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, skömmu eftir að hann lyfti Íslandsbikarnum, þeim sjöunda í sögu félagsins.

Davíð sagði leikinn gegn Fjölni í dag hafa verið erfiðan.

"Já, mér fannst við samt vera sterkari aðilinn alveg þangað til við komumst í 2-1. Þá féllum við ósjálfrátt dálítið langt til baka en náðum að klára þetta," sagði Davíð sem sagði drauga fortíðar ekki hafa þvælst fyrir FH-ingum í dag en þeir töpuðu titlinum á heimavelli í fyrra gegn Stjörnunni eins og frægt er orðið.

"Eina sem var í höfðinu á mér var að klára þetta hérna í dag. Vonbrigðin frá því í fyrra hjálpuðu kannski frekar en hitt og það var virkilega sterkt að ná að klára þetta," sagði Davíð sem er búinn að vera lengi að þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur. Hann segir að titlarnir haldi honum gangandi.

"Þetta verður ekki þreytt meðan maður er að vinna titlana, það er þreytt ef maður nær ekki að klára tímabilin með titli. Þetta var erfitt að tapa þessu á síðustu stundu í fyrra og þetta var erfitt 2013.

"En það er ekkert skemmtilegra en að vinna titla," sagði Davíð sem er nokkuð sáttur með eigin frammistöðu á tímabilinu.

"Já, ég er nokkuð sáttur með þetta. Ég er búinn að spila alla leikina nema einn, þegar ég var í banni, og fannst ég nokkuð stöðugur," sagði fyrirliðinn alsæll að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×