Íslenski boltinn

Gunnar hættur sem þjálfari kvennaliðs Selfoss | Tekur við karlaliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar gerði flotta hluti með kvennalið Selfoss.
Gunnar gerði flotta hluti með kvennalið Selfoss. vísir/anton
Gunnar Rafn Borgþórsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Selfoss og yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. Þetta kemur fram á Sunnlenska.is.

Gunnar hættir því sem þjálfari kvennaliðsins sem hann hefur stýrt með góðum árangri undanfarin þrjú ár. Selfoss náði besta árangri í sögu félagsins í sumar þegar liðið endaði í 3. sæti Pepsi-deildar kvenna og komst auk þess annað árið í röð í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

Gunnar tók við karlaliði Selfoss um mitt síðasta sumar af Zoran Miljkovic og tókst að bjarga liðinu frá falli í 2. deild. Selfyssingar enduðu í 10. sæti 1. deildar í ár en liðið hefur átt erfitt uppdráttar síðan það féll úr Pepsi-deildinni 2012.

Samhliða því að vera þjálfari karlaliðsins mun Gunnar sinna starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Selfossi. Hann mun sjá um stefnumótun í þjálfun yngri flokka félagsins og stýra teymi þjálfara meistaraflokks kvenna og 2. flokks karla og kvenna.

„Þetta er mjög spennandi starf og býður upp á marga kosti fyrir mig sem þjálfara. Hluti af því að ég taki við karlaliðinu er að auka samkenndina og samvinnuna í klúbbnum. Kvennaliðið er komið á frábæran stað og hefur náð góðum árangri með öflugri umgjörð og mögnuðu starfsfólki.

„Ég fann það þegar karla- og kvennaliðin fóru að vinna saman í sumar að það var jákvætt fyrir deildina í heild sinni. Ég er mjög ánægður með að Selfoss sé að taka þetta skref því við ætlum okkur að verða flottasti klúbbur á landinu, ekki bara í kvennaboltanum,“ er haft eftir Gunnari í frétt Sunnlenska.

Á næstu vikum verður tilkynnt hver verður næsti þjálfari kvennaliðs Selfoss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×