Fótbolti

Aron fær ekki að taka þátt í Álfukeppninni 2017

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Mexíkó fagna hér sigrinum í nótt.
Leikmenn Mexíkó fagna hér sigrinum í nótt. Vísir/Getty
Aron Jóhannsson og félagar í bandaríska landsliðinu í fótbolta verða ekki með í Álfubikarnum í Rússlandi árið 2017 en það varð ljóst eftir tap á móti Mexíkó í sérstökum úrslitaleik um sætið í nótt.

Fulltrúi Norður- og Mið-Ameríku á eitt sæti í keppninni en þar sem að það voru búnir að fara fram tveir Gullbikarar á síðustu tveimur árum þá þurftu sigurvegarar þeirra, Bandaríkin 2013 og Mexíkó 2015, að spila um sætið.

Leikurinn fór fram í Rose Bowl í Pasadena í nótt og vann Mexíkó 3-2 sigur eftir framlengingu en staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma.

Aron Jóhannsson, sem leikur með þýska liðinu Werder Bremen, var ekki valinn í bandaríska hópinn fyrir þennan leik en hann er að glíma við meiðsli.

Aron Jóhannsson var fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í Heimsmeistarakeppninni í fótbolta í Brasilíu sumarið 2014 og hann átti möguleika á því að vera einnig sá fyrsti til að taka þátt í Álfukeppni FIFA.

Íslenska landsliðið á reyndar enn möguleika á því að komast í Álfukeppnina þótt langsóttur sé en liðið er komið inn á Evrópumótið í Frakklandi næsta sumar og sú þjóð sem stendur uppi sem sigurvegari á EM 2016 færi sæti í Álfukeppninni.

Javier Hernández kom Mexíkó í 1-0 á 10. mínútu en Geoff Cameron jafnaði aðeins fimm mínútum síðar. Þannig var staðan eftir 90 mínútur og því þurfti að framlengja.

Oribe Peralta kom Mexíkó aftur yfir á 96. mínútu en varamaðurinn Bobby Wood jafnaði á 108. mínútu. Það var síðan hægri bakvörðurinn Paul Aguilar sem skoraði sigurmarkið á 118. mínútu.

Gestgjafar Rússa, Heimsmeistarar Þjóðverja, Asíumeistarar Ástrala og Suður-Ameríkumeistararnir frá Síle hafa nú tryggt sér sæti í Álfukeppninni ásamt Mexíkó en það eru enn laus þrjú sæti. Það eru sæti Eyjaálfumeistaranna (sumar 2016), Evrópumeistaranna (sumar 2016) og Afríkumeistaranna (febrúar 2017).

Álfukeppnin fer fram 17. júní til 2. júlí 2017 og fer úrslitaleikurinn fram í Sankti Pétursborg.


Tengdar fréttir

Aron skoraði sitt fyrsta mark fyrir Werder Bremen

Tveir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en Aron Jóhannsson opnaði markareikning sinn hjá Werder Bremen þegar hann skoraði mark úr vítaspyrnu gegn Borussia Moenchengladbach.

Aron skoraði en Werder Bremen tapaði

Aron Jóhannsson var á skotskónum með Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld en það skilaði liðinu þó engu því Bremen-liðið fór stigalaust heim frá Darmstadt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×