Íslenski boltinn

Doumbia og Davíð Þór framlengja við FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kassim Doumbia og Davíð Þór í leik gegn Víkingi.
Kassim Doumbia og Davíð Þór í leik gegn Víkingi. vísir/stefán
Miðvörðurinn Kassim Doumbia og miðjumaðurinn Davíð Þór Viðarsson framlengdu báðir samninga sína við FH í dag, en það var tilkynnt á sama tíma og Gunnar Nielsen var kynntur til leiks sem nýr markvörður liðsins.

Samningar bæði Doumbia og Davíðs Þórs, sem er fyrirliði FH, voru að renna út, en nú er ljóst að þeir verða áfram í Hafnarfirðinum.

Doumbia skrifaði undir nýjan tveggja ára samning en Davíð Þór skrifaði undir þriggja ára samning við uppeldisfélagið.

Kassim Doumbia kom til FH fyrir tímabilið 2014 og var hársbreidd frá því að verða meistari með liðinu á fyrsta ári. Hann hefur í tvö ár verið einn albesti miðvörður deildarinnar.

Davíð Þór kom heim úr atvinnumennsku fyrir tveimur árum og lyfti Íslandsbikarnum með Doumbia eftir tímabilið í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×