Erlent

Flugmaðurinn tilkynnti tæknilega örðugleika

Samúel Karl Ólason skrifar
Ættingi eins farþegans grætur á flugvellinum í St. Pétursborg.
Ættingi eins farþegans grætur á flugvellinum í St. Pétursborg. Vísir/AFP
Rússnesk farþegaflugvél brotlenti á Sinai-skaga í nótt með 224 manneskjur um borð. Embættismenn í Egyptalandi segja að líklegast séu allir farþegar látnir. Brak úr vélinni hefur fundist, en hún hvarf af ratsjám í 9.500 metra hæð, 23 mínútum eftir flugtak. Um er að ræða A-321 Aribus flugvél frá flugfélaginu Kogalymavia, eða Metrojet.

Flugvélin var á leið frá vinsælum ferðamannastað við Rauðahafið til St. Pétursborgar þegar hún brotlenti. 217 farþegar voru um borð, þar af 17 börn og auk þeirra voru sjö áhafnarmeðlimir um borð. Allir farþegar vélarinnar eru sagðir hafa verið frá Rússlandi.

BBC segir frá því að flugvélin hafi lækkað flugið mjög hratt, áður en hún hvarf af ratsjám. Þá er því haldið fram af Flightradar að hraði vélarinnar hafi lækkað mjög á síðustu sekúndunum.

Vladimir Putin, forseti Rússlands, hefur embættismönnum að fljúga þegar af stað til Sýrlands og hjálpa til við björgunarstörf. Þá hefur forsetinn lýst yfir að á morgun verður þjóðarsorg í Rússlandi.

Þá hafa yfirvöld í Moskvu hafið rannsókn á flugfélaginu og aðdraganda slyssins. Kannað verður hvort að öryggisreglur hafi verið brotnar.

Björgunarmenn eru sagðir vera komnir að flakinu og segja þeir að það sé í fjalllendi og að veðurskilyrði séu slæm.

Samkvæmt AP fréttaveitunni hafði flugmaður vélarinnar tilkynnt tæknilega örðugleika skömmu áður en flugumferðarstjórar misstu samband við vélina. Flugmaðurinn sagðist ætla að lenda vélinni á næsta flugvelli. Flugvélin brotlenti í um 50 kílómetra fjarlægð frá El Arish flugvellinu, þar sem flugmaðurinn ætlaði að framkvæmda nauðlendingu.

Vélin fannst á þessu svæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×