Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að utanríkisstefna Frakkland hafi hjálpað til við að fjölga hryðjuverkamönnum í heiminum. Yfirlýsingin kemur í kjölfar árásar á sjö staði í París þar sem minnst 128 létu lífið. Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. AFP greinir frá.
„Atburðir gærdagsins í París eru óaðskiljanlegir þeim atburðum sem hafa átt sér stað í Líbabon, Sýrlandi og nágrannalöndum undanfarin fimm ár,“ segir Assad en síðasta fimmtudag létust 44 í sprengjuárásum í úthverfum Beirút. ISIS hafa einnig lýst sig ábyrga á árásinni í Beirút. Ummælin lét hann falla á fundi með frönskum embættismönnum.
„Við höfum varað við þessum möguleika undanfarin þrjú ár en því miður hafa ráðamenn í Evrópu ekki hlustað á okkur. Spurningin sem allir Frakkar eiga að spyrja sig í dag er hvort stefna þeirra síðustu fimm ár hafi verið rétt. Stutta svarið er nei,“ segir Assad.
Frakkland hefur verið ein þeirra þjóða sem hefur veitt uppreisnarmönnum í Sýrlandi einna mesta aðstoð ásamt Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu. Að auki hafa franskar herflugvélar varpað sprengjum á Sýrland undanfarið ár.

