Hæsta viðbúnaðarstigi var lýst yfir í Brussel í gærkvöldi og hafa yfirvöld í Belgíu varað við alvarlegri og yfirvofandi hryðjuverkahættu. Lestarkerfinu hefur verið lokað og almenningi ráðlagt að halda sig fjarri fjölförnum stöðum.
Næst hæsta viðbúnaðarstig hefur verið í gildi í landinu öllu undanfarna daga. Það var hækkað í höfuðborginni í gær, meðal annars vegna gruns um að einn höfuðpaura árásanna í París, Salah Abdeslam, sé staddur í borginni.
Í tilmælum stjórnvalda er fólk beðið um að forðast mikinn mannfjölda, meðal annars í verslunarmiðstöðvum og á tónleikum næstu daga. Þá hefur ýmsum viðburðum verið aflýst, til að mynda fótboltaleikjum og tónleikum.
Nokkrir af ódæðismönnunum í árásunum í París voru með belgískt ríkisfang. Fjölmargar handtökur og húsleitir hafa átt sér stað í landinu síðan þá, en þar á meðal var Abdelhamid Abbaoud, skipuleggjandi hryðjuverkanna, en hann fell í áhlaupi lögreglu í París.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma að stórefla aðgerðir gegn ISIS, en hryðjuverkasamtökin hafa lýst ábyrgð á árásunum.

