Sport

Rosalega ánægð með mína stöðu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hafdís náði að vera meðal tólf efstu.
Hafdís náði að vera meðal tólf efstu. vísir/epa
Hafdís Sigurðardóttir var nokkuð frá sínu besta í langstökkinu á EM innanhúss í gær en náði þó tólfta sætinu líkt og hún stefndi að.

Hún hélt að það myndi skila sér inn í úrslitin en hún komst svo að því kvöldið fyrir keppni að aðeins átta bestu færu í úrslit.

„Það var svolítið svekkjandi að komast að því. Svo var náttúrulega týpískt að ég lenti í tólfta sæti sem var sætið sem ég taldi að myndi skila mér inn,“ sagði Hafdís létt og hló við.

Hafdís stökk best 6,35 metra en Íslandsmet hennar er 6,47 metrar. Jöfnun á Íslandsmeti hefði reyndar ekki dugað henni í úrslit því sú sem komst síðust inn var með stökk upp á 6,53 metra.

„Mér líður alveg ágætlega eftir þetta allt saman. Ég er bara nokkuð sátt og ætla ekki að svekkja mig. Ég brosi bara. Ég reyndi að njóta þessa eins og ég gat og þetta var rosalega gaman,“ sagði Hafdís jákvæð.

„Auðvitað er þetta alltaf svolítið stressandi. Ég ætlaði auðvitað að vera nær Íslandsmetinu mínu en þetta. Svona er þetta. Það eru ekki alltaf jólin í þessu. Ég er samt þokkalega sátt. Ég byrjaði á góðu stökki og fór að líða betur með mig. Svo vorum við margar og löng bið milli stökka. Þetta fór svona í dag.“

Hafdís segir að þetta hafi verið góð reynsla líka og hún er heilt yfir ánægð með sína stöðu.

„Ég er rosalega ánægð með mína stöðu á Evrópulistanum og hvar ég endaði núna. Þetta er flottur árangur og ég er stolt af mínum árangri. Ég fæ ekkert nema gleðina yfir því að hafa náð tólfta sætinu samt, því miður.“


Tengdar fréttir

Aníta tekin í lyfjapróf eftir methlaupið sitt

Aníta Hinriksdóttir setti nýtt Íslands- og Evrópumet í dag þegar hún tryggði sér með glæsibrag sæti í undanúrslitunum í 800 metra hlaupi kvenna á EM innanhúss í Prag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×