Íslenski boltinn

Stórvirkar vinnuvélar að störfum á Laugardalsvellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/KSÍ
Það er mikið um að vera á Laugardalsvellinum þrátt fyrir að það sé snjór og klaki yfir öllu og rúmir þrír mánuðir í fyrsta leik.

Einhverjum bregður eflaust í brún þegar hann horfir yfir þjóðarleikvang Íslendinga og sér þar stórvirkar vinnuvélar að keyra á grasvellinum.

Knattspyrnusamband Íslands segir frá því að það sé ekki oft sem stórvirkar vinnuvélar fá að keyra um á Laugardalsvellinum en nú sé nauðsyn.

Vallarstarfsmenn sjá almennt til þess að sem minnstur átroðningur sé á grasinu en þar sem þykkur klaki er nú yfir vellinum þá þarf að grípa til örþrifaráða.

Vegheflar hafa því keyrt fram og tilbaka á Laugardalsvelli í morgun til að ná snjó af vellinum og brjóta klakann.

Það er frost í kortunum sem er ekki gott fyrir ástand valla en helst væri best að fá hita og rigningu til að vinna á klakanum sem liggur yfir öllu.

Samkvæmt frumdrögum að Íslandsmótum þá verður leikið 1. maí í Pepsi-deild karla og 30. apríl í Borgunarbikarnum. Það er því mikilvægt að huga að völlum og reyna að minnka eins og hægt er klaka á völlunum

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mun ekki spila leik á vellinum fyrir Evrópumótið í Frakklandi í júní en stelpurnar okkar mæta Makedóníu á Laugardalsvellinum 7. júní næstkomandi.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem KSÍ setti inn á fésbókarsíðu sambandsins.

Ballið er byrjað! Klakinn þykkur og ekkert minna en vegheflar duga til að vinna á honum. Tekið á Laugardalsvelli í morgun.

Posted by KSÍ - Knattspyrnusamband Íslands on 15. janúar 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×