Fótbolti

Kristinn aðeins sá fimmti til að skora í fyrstu tveimur landsleikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Steindórsson hefur skorað í tveimur fyrstu leikjum sínum með íslenska A-landsliðinu og hér fagnar hann marki sínu um síðustu helgi.
Kristinn Steindórsson hefur skorað í tveimur fyrstu leikjum sínum með íslenska A-landsliðinu og hér fagnar hann marki sínu um síðustu helgi. Vísir/Getty
Kristinn Steindórsson hefur skorað í tveimur fyrstu leikjum sínum með íslenska A-landsliðinu í fótbolta og því hafa ekki margir aðrir náð.

Kristinn setti met fyrir ári þegar hann skoraði eftir aðeins sex mínútur í sínum fyrsta A-landsleik. Tækifæri númer tvö kom ekki fyrr en í Los Angeles á sunnudaginn eða 380 dögum síðar.

Það tók Kristin aðeins þrettán mínútur að koma Íslandi í 1-0 á móti Bandaríkjunum á heimavelli Los Angeles Glalaxy. Bandaríkjamenn unnu leikinn á endanum 3-2 en Kristinn var kominn í fámennan hóp.

Kristinn er aðeins einn af fimm leikmönnum sem hafa verið á skotskónum í fyrstu tveimur landsleikjum og jafnframt sá fyrsti til að ná því í tæp nítján ár. Hinir fjórir meðlimir klúbbsins eru stofnmeðlimurinn Lárus Þór Guðmundsson auk þeirra Erlings Kristjánssonar, Guðmundar Steinssonar og Tryggva Guðmundssonar. Tryggvi var síðastur á undan Kristni að fá aðild en hann skoraði í tveimur fyrstu leikjum sínum árið 1997.

Lárus Guðmundsson var fyrstur til að skora í tveimur fyrstu landsleikjum sínum en það leið þó meira en ár á milli fyrstu landsleikja hans. Erlingur Kristjánsson skoraði þrjú mörk í tveimur leikjum á móti Færeyjum í byrjun ágúst 1982 og var annar meðlimur klúbbsins. Guðmundur Steinsson þurfti að bíða í meira en fjögur ár eftir öðrum landsleiknum.

Aron Sigurðarson skoraði í sínum fyrsta landsleik í leiknum við Bandaríkjamenn og fær því möguleika á að bætast í þennan hóp þegar hann fær næsta tækifæri með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×