Fótbolti

Lars og Eiður Smári virða ákvörðun Arons að velja Bandaríkin

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Aron Jóhannsson spilar í Evrópu og tók því ekki þátt í leiknum í gær. Þá er hann líka meiddur.
Aron Jóhannsson spilar í Evrópu og tók því ekki þátt í leiknum í gær. Þá er hann líka meiddur. vísir/getty
Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er ekkert svekktur út í Aron Jóhannsson fyrir að hafa valið bandaríska landsliðið fram yfir það íslenska fyrir þremur árum síðan.

Aron, sem fæddist í Bandaríkjunum en ólst upp í Grafarvogi í Reykjavík, stóð frammi fyrir erfiðu vali sumarið 2013 og valdi á endanum að spila fyrir Bandaríkin. Það skilaði honum ferð á HM 2014 þar sem hann kom inn á sem varamaður í fyrsta leik.

„Maður verður að virða ákvörðun leikmanns sem er með tvö vegabréf. Ég talaði nokkrum sinnum við hann þegar hann var að velja og mér fannst það augljóst hvað hann vildi þannig ég óskaði honum bara alls hin besta,“ sagði Lars í viðtali við ESPN fyrir landsleik Bandaríkjanna og Íslands sem fram fór í Carson í Kaliforníu í gærkvöldi.

Ekki voru allir Íslendingar sáttir við ákvörðun Arons, en Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður karlalandslisðins frá upphafi, er ánægður fyrir hönd íslenska Bandaríkjamannsins.

„Hann er frábær strákur. Hann virkar mjög ánægður og stoltur að spila fyrir Bandaríkin og það er það sem skiptir máli. Hann spilaði líka á HM. Ég vona svo sannarelga að hann hafi notið þeirrar reynslu og vonandi á hann langan feril fram undan,“ sagði Eiður Smári.

Íslenska landsliðið komst ekki á HM 2014 eins og Aron gerði með bandaríska landsliðinu, en strákarnir okkar verða þó í fyrsta sinn á stórmóti í sumar þegar þeir mæta til leiks á EM 2016 í Frakklandi.

Eiður Smári viðurkenndi að Aron hefði komi að góðum notum á EM, en Lars gat ekki annað en skotið létt á Fjölnismanninn fyrrverandi.

„Þegar við töluðum saman taldi hann sitt besta tækifæri á að komast á stórmóti væri með Bandaríkjunum. Hann hafði ekki alveg rétt fyrir sér þar,“ sagði Lars Lagerbäck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×