Skoðun

Dagur íslenska táknmálsins

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir skrifar
Dagur íslenska táknmálsins er í dag, 11. febrúar á afmælisdegi Félags heyrnarlausra. Í huga okkar sem tilheyrum táknmálssamfélaginu er þetta hátíðardagur. Í tilefni dagsins verður hátíðardagskrá í Tjarnarbíói sem er í umsjón Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og Félags heyrnarlausra með stuðningi frá Landsbanka og Reykjavíkurborg.

Á degi íslenska táknmálsins fyrir ári var ákveðið að frá og með þeim degi og fram að degi íslenska táknmálsins í dag yrði það ár táknmáls­talandi barna. Áhersla hefur verið lögð á að efla málumhverfi íslenska táknmálsins og auka aðgang barna að menningu og málsamfélagi íslenska táknmálsins. Í dag fáum við að njóta afrakstursins á ýmsum sviðum s.s í leiklist, myndlist, stuttmynd og fleira á barnamenningarhátíðinni sem fram fer í dag í Tjarnarbíói.

Málnefnd um íslenskt táknmál hefur í árlegum skýrslum sínum bent á að efla þurfi veg íslenska táknmálsins þannig að það fái að blómstra um ókomna tíð. Stjórnvöld og við sem erum málhafar íslenska táknmálsins þurfum að tryggja táknmáls­talandi börnum ríkulegt málumhverfi. Barni sem fær að alast upp við ríkulegt táknmálsumhverfi gefst tækifæri til að tileinka sér íslenskt táknmál og er aðgengi þess að málsamfélaginu samofið möguleika þess til menntunar og þátttöku í samfélaginu. Aðgengi að málsamfélagi íslenska táknmálsins og menningu þess styrkir sjálfsmynd barns og býr það betur undir lífið.

Rannsóknir hafa víða sýnt fram á að sá einstaklingur, sem reiðir sig á táknmál í daglegu lífi, er mun betur í stakk búinn til að takast á við hindranir ef hann er daglega í ríkulegu táknmálsumhverfi. Hann hefur ívið fleiri bjargráð til að komast yfir hindranir sem samfélagið setur og hefur mun meira sjálfstraust til að takast á við lífið og samfélagið.

Ég óska öllum til hjartanlega hamingju með dag íslenska táknmálsins og hvet alla landsmenn til að leggja sig fram um að íslenska táknmálið fái að blómstra um ókomna tíð.




Skoðun

Skoðun

Daníel Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×