Skoðun

Sóknarfæri í íþrótta- og heilsufræði

Jón Atli Benediktsson skrifar
Háskólaráð Háskóla Íslands tók á fimmtudag ákvörðun um að flytja grunnnám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur frá og með næsta hausti. Er þar um að ræða námsbraut innan Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar Menntavísindasviðs skólans, en meistaranámið er nú þegar kennt í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að nemendur sem hefja nám á 1. ári í þessari grein stundi það í Reykjavík en þeir nemendur sem þegar eru á Laugarvatni ljúka því þar.

Málefni íþrótta- og heilsufræðinnar hafa verið til ítarlegrar skoðunar innan Háskóla Íslands undanfarin misseri því lengi hefur verið ljóst að gera þyrfti breytingar á starfseminni vegna minnkandi aðsóknar í námið á Laugarvatni. Nokkrar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessum samdrætti, meðal annars staðsetning námsins á Laugarvatni og lenging kennaranáms úr þremur árum í fimm. Nú eru samtals um 40 nemendur í fullu námi (svokallaðir ársnemar) í grunnnámi í íþrótta- og heilsufræði á Laugarvatni en þeir þyrftu helst að vera  þrefalt fleiri til þess að námsbrautin standi undir sér miðað við núverandi fjármögnunarlíkan mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Til samanburðar má nefna að á árum áður voru um 40 til 50 nemendur í hverjum árgangi. 

Ákvörðun háskólaráðs byggir á niðurstöðum tveggja skýrslna sem unnar voru um málið af starfsfólki Háskóla Íslands á síðasta ári. Bornir voru saman ólíkir valkostir, einkum þeir að hafa grunnnámið áfram á Laugarvatni eða færa það til Reykjavíkur, og þeir kostnaðargreindir. Í greiningarvinnunni var meðal annars rætt við starfsfólk námsbrautarinnar, bæði á Laugarvatni og í Reykjavík, nemendur sem og fulltrúa sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og fleiri aðila. Nefna má að fulltrúar starfsfólks námsbrautarinnar komu að gerð seinni skýrslunnar. 

Nú liggur niðurstaðan fyrir en markmið með flutningi námsins til Reykjavíkur er að efla það og nýta til hlítar sóknarfæri tengd íþrótta- og heilsufræði. Háskóli Íslands býður nú þegar upp á fjölbreytt nám í þessum og tengdum greinum. Með uppbyggingu námsins í Reykjavík gefast aukin tækifæri á samnýtingu, samþættingu og samlegð við aðrar greinar.

Háskóli Íslands hefur í öllu þessu ferli lagt áherslu á að leitast við að móta áframhaldandi starfsemi háskólans á Laugarvatni þó svo að hún yrði með breyttu sniði. Hugmyndir þar að lútandi hafa þegar verið kynntar fulltrúum þingmanna Suðurkjördæmis og sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og einnig fulltrúum Háskólafélags Suðurlands. Háskólinn hefur lagt áherslu á að næsta ár verði notað til þess að vinna málið áfram með framangreindum aðilum og eftir atvikum fleiri aðilum er áhuga kynnu að hafa á starfsemi háskólans á svæðinu ásamt akademískum stjórnendum innan Háskóla Íslands. Hins vegar er ljóst að ef af starfsemi á Laugarvatni á að verða er nauðsynlegt að tryggja henni bæði fjárhagslegan og faglegan grundvöll.

Háskóli Islands er sjálfstæð stofnun sem að stórum hluta er rekin fyrir almannafé. Háskólanum er sniðinn þröngur stakkur fjárhagslega vegna langvarandi undirfjármögnunar. Engu að síður hefur skólinn stöðugt sótt fram með það að leiðarljósi að efla kennslu og rannsóknir. Það er trú okkar að þessi ákvörðun um flutning muni styrkja nám og rannsóknir í íþrótta- og heilsufræði við skólann.

Höfundur er rektor Háskóla Íslands




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×