Sport

Aníta í hóp þeirra bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir
Hlaupadrottningin Aníta Hinriksdóttir varð á sunnudagskvöldið aðeins fimmti Íslendingurinn sem kemst í hóp fimm bestu á Heimsmeistaramótinu í frjálsum innanhúss í þriggja áratuga sögu keppninnar.

Aníta náði þriðja besta tímanum í undanrásunum og varð síðan í fimmta sæti í sjálfu úrslitahlaupinu. Þetta var annað árið í röð sem Aníta kemst í úrslit á stórmóti og verður í fimmta sæti en þeim árangri náði hún einnig á EM í Prag fyrir aðeins einu ári.

Francine Niyonsaba frá Búrúndí varð heimsmeistari og í næstu sætum á eftir henni voru tvær bandarískar hlaupakonur og ein frá Kenía. Aníta var eini Evrópubúinn sem komst í úrslit en hin úkraínska Anastasiia Tkachuk rétt missti af sæti í úrslitahlaupinu.

Aníta og Vala langyngstar

Aníta varð tvítug í janúar og varð með þessu afreki sínu yngsti Íslendingurinn sem nær einu af fimm efstu sætunum á HM innanhúss í frjálsum íþróttum. Aníta bætti met Völu Flosadóttur sem var tæplega ári eldri þegar hún vann silfur í stangarstökki á HM í Maebashi í Japan árið 1999. Vala er áfram yngsti verðlaunahafi Íslands.

Þær Aníta og Vala eru langyngstar á listanum yfir þá Íslendinga sem hafa komist í hóp fimm bestu á HM innanhúss en næst þeim er Oddný Árnadóttir sem var 27 ára, 4 mánaða og 23 daga þegar hún varð í fimmta sæti í 400 metra hlaupi á HM í París 1985. Hér á síðunni má sjá lista yfir þá fimm Íslendinga sem hafa komist í hóp fimm bestu á HM innanhúss frá því að það fór fram í fyrsta sinn í janúar 1985.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×