Erlent

Ekkert að marka loforðið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Donald Trump sér ekki lengur ástæðu til að lofa stuðningi við neinn annan en sjálfan sig.
Donald Trump sér ekki lengur ástæðu til að lofa stuðningi við neinn annan en sjálfan sig. Visir/EPA
 Donald Trump segist nú ekki ætla að standa við loforð, sem hann gaf skriflega á síðasta ári, um að styðja þann frambjóðenda sem á endanum verði ofan á sem forsetaefni Repúblikanaflokksins.

Allir þeir repúblikanar, sem höfðu sóst eftir að verða forsetaefni flokksins, undirrituðu yfirlýsingu um þetta í september síðastliðnum. Trump féllst á að skrifa undir, en gerði það að skilyrði að allir hinir undirrituðu líka. Sem þeir svo gerðu.

Þegar Trump var spurður út í þetta í fyrrakvöld í sjónvarpssendingu á CNN, þá sagðist hann hættur við. „Nei, við skulum sjá til hver það verður,“ sagði hann.

Trump hefur enn ekki tryggt sér meirihluta fulltrúa á landsþingi Repúblikanaflokksins, sem haldið verður í júlí. Á þinginu verður formlega gengið frá því hver verður forsetaefni flokksins.

Í forkosningum flokkanna, sem haldnar eru í ríkjum Bandaríkjanna þessar vikurnar, er verið að kjósa um það hvaða frambjóðanda fulltrúarnir á landsþinginu eiga að styðja.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 31. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×