Erlent

Trump fær ekki stuðning Bush

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump.
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump. vísir/Epa
Fyrrum forsetarnir og feðgarnir George H. W. Bush og George W. Bush neita að lýsa yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda repúblikana, Donald Trump. Þá segir fyrrum forsetaframbjóðandinn John McCain að framboð Trumps skaði möguleika sína á endurkjöri.

Leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, Mitch McConnell, lýsti þó yfir stuðningi við Trump í gær og einnig ríkisstjóri Suður-Karólínu, Nikki Haley, líka. Óhætt er þó að segja að stuðningsyfirlýsingar þeirra hafi verið hógværar og forðuðust þau að hrósa frambjóðandanum.

„Eins og ég hef alltaf sagt þá mun ég styðja frambjóðanda flokksins,“ sagði Haley en McConnell sagðist vera skuldbundinn til að styðja frambjóðanda flokks síns.

Líklegur mótherji Trumps í forsetakosningunum, Hillary Clinton, mælist með 6 prósentustiga forskot á hann í meðaltali skoðanakannana Real Clear Politics. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×