Skoðun

Árétting vegna umfjöllunar um úthlutunarreglur LÍN

LÍN skrifar
Vegna leiðara Fréttablaðsins sem birtist 2. maí óskar Lánasjóður íslenskra námsmanna eftir því að koma eftirfarandi á framfæri.

LÍN úthlutar lánum í samræmi við framfærsluþörf þess lands sem lánþegi stundar nám í. Þannig tryggir sjóðurinn sanngirni milli námsmanna, óháð því hvar í heiminum þeir kjósa að leggja stund á nám sitt. Við vinnslu úthlutunarreglna LÍN fyrir skólaárið 2014-2015 kom í ljós að framfærslugrunnur námsmanna erlendis gaf ekki rétta mynd af raunverulegri framfærsluþörf og að meðaltali voru lán 20% umfram framfærsluþörf viðkomandi lands. Því er ljóst að lagfæringar var þörf til að gæta sanngirnis milli lánþega, koma í veg fyrir lántöku nemenda umfram þörf og tryggja eðlilegan rekstur sjóðsins.

Árlega veitir LÍN námslán fyrir um 16.000 milljónir króna. Af þeirri fjárhæð eru um 8.000 milljónir styrkur, eða 47% veittra námslána, þ.e. framlag ríkissjóðs af útlánum hvers árs sem áætlað er að endurgreiðist ekki.

Námslán aðlöguð að framfærsluþörf bæði til hækkunar og lækkunar

Samkvæmt sérfræðiúttekt ráðgjafafyrirtækisins Analytica og með samanburði við lán sænska lánasjóðinn, þá eru námslán til námsmanna erlendis víða verulega umfram framfærsluþörf. Í mörgum löndum munaði tugum prósenta en að meðaltali voru lán 20% umfram framfærsluþörf viðkomandi lands, miðað við dreifingu námsmanna á lönd og borgir. Dæmi eru um að íslenskir námsmenn séu að taka lán sem nemur um tvöfaldri framfærsluþörf námslandsins og öllu hærri en meðallaun heimamanna.

Meginskýringin á þessari skekkju er órökstudd hækkun námslána erlendis árið 2009 umfram framfærsluþörf. Áætla má að frá þeim tíma hafi verið lánaðar samtals um 3.000 milljónir króna umfram framfærsluþörf.. Þessa skekkju er nú verið að leiðrétta í áföngum.

Skýrslu Analytica og aðferðarfræði má finna á heimasíðu LÍN og hefur legið fyrir í rúmt ár. Í skýrslunni kom jafnframt fram að í 7 löndum var framfærsluþörfin vanmetin, þ.e. námslán voru of lág. Í þeim tilvikum var leiðrétt til hækkunar þegar í stað. Þar sem leiðrétta þurfti til lækkunar er slíkt gert í nokkrum skrefum. Þannig er enn verið að lána umfram framfærsluþörf í nokkrum löndum og mun sú skekkja vera endanlega leiðrétt skólaárið 2017-2018.

LÍN er rekinn sem félagslegur jöfnunarsjóður og fjármagnaður af skattgreiðendum. Því er ekki er hægt að réttlæta þá meðferð á almannafé að lána umfram framfærsluþörf.

Jafnframt er ekki í þágu námsmanna að aukið sé við skuldsetningu þeirra umfram þörf. Þá er ljóst að hagur námsmanna víða erlendis, þar sem lánað var umfram framfærsluþörf, var langt umfram hag námsmanna á Íslandi.

Í ljósi framangreindra staðreynda var LÍN skylt að bregðast við og laga námslán erlendis að eiginlegri framfærsluþörf, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar. Annað hefði verið óábyrgt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×